Austur Steikhús

Austur Steikhús heitir veitingahúsið sem opnaði fyrr á árinu í fyrrum aðalútibúi gamla Búnaðarbankans við Austurstræti. Nafnið vísar væntanlega jafnt til staðsetningarinnar sem þess að eitthvað er sótt til Austurlanda í matargerðinni.

Við gátum valið úr borðum í tveimur veitingasölum. Öðrum rétt við innganginn þar sem birtunnar frá gluggunum naut og hins vegar aðalrýminu, dökkum sal þar sem flestir gestir höfðust við. Sá síðari varð fyrir valinu enda greinilega meira um að vera þar.

Svart er ríkjandi litur í veitingasalnum og lengi vel áttuðum við okkur ekki á því að svartir matseðlarnir lágu ofan á svarta dúknum á borðinu enda einungis lítil ljóstýra frá tekerti í „snjóbolta“ sem gestir hafa til aðstoðar.

Birtuskilyrðin gerðu lestur matseðilsins tafsamari en ella þar sem gestir þurftu að rýna af mikilli einbeitingu í sortann og bera matseðilinn reglulega upp að tekertinu til að vera vissir í sinni sök. Hugsanlega er þetta til marks um að maður sé að verða miðaldra og að lýsing eða öllu heldur lýsingarleysi taki mið af yngri meðalaldri gesta með óskerta sjón.

Að öllu gamni slepptu fannst mér einum of langt gengið í þessum efnum. Ég hef eiginlega ekki lent í því áður að sjá varla matinn á diskinum.

Fyrsti réttur inn var andasalat oriental. Öndinn var ekki skorin við nögl í þessum rétti, steikt og stökk og velt upp úr sætri þykkri sósu með austurlensku ívafi og blandað saman við klettasalat og blaðsalat. Sósan er kölluð nobu-dressing á matseðlinum, sem vísar væntanlega til hins fræga kokks Nobu Matshuhisa. Það var þó fátt sem minnti á Japan í þessu, miklu frekar vestræna útgáfu af kantónskri matargerð. Ágætt engu að síður.

Nautacarpaccio var þunnt eins og vera ber en skammturinn nokkuð lítill, Kjötið fínt, hefðbundið meðlæti með, salat og Parmesan, en óhófleg saltnotkun spillti nokkuð fyrir.

T-bone steikin var grilluð nákvæmlega eins og beðið hafði verið um, safarík og ágætlega meyr. Með henni gulrótarbitar og rótargrænmeti ásamt bakaðri kartöflu og volgri, ágætlega samsettri béarnaise.

Hinum megin við borðið var borin fram grasreykt lund, sem veiða þurfti upp úr kari, kjötið mjúkt og ljúft en sósur með daufar og hlutlausar.

Eftirréttirnir voru einfaldir, ágætlega bragðgóðir og hugmyndirnar ágætar, ekki síst í kókoseftirréttinum, en liðu helst fyrir það að of miklu var hrært saman. Rétti má auðvitað byggja upp á mörgum elementum en til að þau njóti sín verða þau að vera með einhverjum hætti aðskilin en ekki öll í einum hnapp.

Þjónusta var ágætlega skilvirk og vínseðill þokkalegur þótt manni blöskri eins og svo oft álagning íslenskra veitingahúsa. Af hverju þarf að smyrja 8000 krónum ofan á flösku sem kostar 4000 krónur út úr búð? Varla hvetur það gesti til að fá sér þokkalegt vín með matnum?

 

Deila.