Pizza Kalifornía

Þessi uppskrift kemur frá Kaliforníu í Bandaríkjunum og áhrifin eru héðan og þaðan. Bandaríkjamenn eru mjög hrifnir af ítölskum kryddpylsum og þótt þær séu ekki fáanlegar hér þá björgum við okkur með því að blanda saman kryddum og kjöti líkt og pylsugerðarmennirnir gera.

 • 1 skammtur pizzudeig
 • 1 skammtur af ítalskri kryddpylsublöndu en í hann þurfum við eftirfarandi:
 • 500 g svínahakk
 • 1 msk fennelkrydd
 • 1 tsk Cayennepipar
 • 1 tsk Chiliflögur
 • 4 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • skvetta af rauðvíni
 • salt og pipar

Hrærið þessu öllu saman í skál.

Annað sem þarf á pizzuna:

 • 3-4 paprikur, mislitar
 • 1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
 • 3 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
 • Parmesanostur
 • ólívuolía

1 væn lúka ferskar kryddjurtir, t.d. óreganó, marjoram og steinselja

En þá er komið að því að gera pizzuna. Skerið paprikurnar í ræmur. Fallegast er að nota mislitar paprikur, rauða, gula, appelsínugula og græna. Hitið ólívuolíu á pönnu og steikið paprikuræmurnar ásamt rauðlauknum og hvítlauknum þar til paprikan er orðin mjúk. Slökkvið þá á hitanum og bætið kryddjurtunum saman við.

Fletjið út pizzudeigið. Þekið botninn með paprikunni af pönnunni og setjið þá kjötblönduna ofan á. Bakið pizzuna á pizzasteini á grilli eða í mjög heitum ofni þar til botninn er fullbakaður og kjötið eldað, 8-10 mínútur. Sáldið nýrifnum Parmesanosti yfir áður en þið berið pizzuna fram.

Ávaxtaríkt en öflugt vín með á borð við Coto Vintage.

 

Deila.