Key lime pie

Ávöxturinn Key lime hefur að undanförnu sést í búðum hér á landi en hann er ein helsta uppistaðan í einum þekktasta eftirrétti Bandaríkjanna Key lime pie.

Key lime eru mun minni en hefðbundnar límónur eða súraldin, svipaðar valhnetum að stærð, súrari og beiskari en límónur. Þær draga nafn sitt af eyjunum (Florida Keys) suður af Flóridaskaga en þekktust þeirra er Key West. Upphaflega kemur þessi ávöxur þó frá Asíu.

Key lime er hinn opinberi ávöxtur Flórida og þekktastur er hann sem ein af uppistöðunum í Key lime bökunni. Í hana er samkvæmt hefðinni notuð niðursoðin sætmjólk (condensed milk) en hana er hægt að fá hér á landi í asískum verslunum.

Ef þið finnið ekki Key lime í ykkar búð er hægt að nota hefðbundnar límónur eða blöndu til helminga úr límónu og sítrónusafa.

Hráefni

  • 12 Grahams-kexkökur (McVities Digestive)
  • 100 grömm smjör
  • 1,2-1,5 dl. pressaður safi úr Key lime (allt eftir því hvað þið viljið sterkt bragð)
  • 4 eggjarauður
  • 1 dós sætmjólk (condensed milk)

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 180 gráður.
  2. Myljið kexið í matvinnsluvél. Blandið volgu smjörinu saman við í matvinnsluvélinni Fyllið botninn á bökuformi með deiginu. Bakið í 15 mínútur í ofninum. Takið út og leyfið að kólna.
  3. Þeytið eggjarauðurnar með þeytara í 1-2 mínútur. Þeytið sætmjólkinni og síðan safanum saman við. Hellið í bökuformið og bakið í 20 mínútur.
  4. Leyfið bökunni að kólna og setið síðan í ísskáp áður en hún er borin fram. Það er líka hægt að setja hana í frysti í klukkustund eða svo til að auðveldara verði að skera bökuna. Key lime pie er gjarnan borin fram með þeyttum rjóma.
Deila.