Spy Valley Merlot 2007

Vínhúsið Spy Valley hefur verið með þeim mest spennandi á Nýja Sjálandi síðustu misserin. Í byrjun hét vínhúsið Johnson Estate enda stofnað af þeim Bryan og Jan Johnson árið 1993. Árið 2000 breyttu þau hins vegar nafninu í Spy Valley og er nafnið tilkomið vegna njósnastöðvar Bandaríkjamanna, sem er hluti af Echelon-kerfinu, í Wairau dalnum.

Þetta er hrikalega flott vín en jafnframt mjög óvenjulegur Merlot. Hann hefur mjög lítil Merlot-einkenni og minnir um flest frekar á kröftugan nýjaheims Pinot Noir. í stílnum Hann bókstaflega stekkur upp úr glasinu, ágengur og ákafur. Ávöxturinn sætur, sultaðar plómur, bláber og fíkjur. Í munni kemur þéttriðið vín í ljós, með  mjúkum en föstum tannínum, vínið hefur gott grip og lengd. Eitt af þessum vínum sem kemur manni svolítið í opna skjöldu og heillar upp úr skónum.

2.790 krónur.

 

Deila.