Ceviche – kryddlegin þorskflök

Þessi aðferð við matreiðslu á ferskum hvítum fiski er þekktust í rómönsku Ameríku, bæði í Mið- og Suður-Ameríku, og kallast ceviche eða cebiche.

Þetta er réttur sem auðvelt er að aðlaga eigin smekk og breyta t.d. um fiskitegundir, nota úthafsrækjur í stað humars (eða sleppa alveg), setja graslauk eða myntu í staðinn fyrir kóríander og bæta við eða draga úr chillí eftir smekk og tilfinningu. Einnig er auðvelt að stækka uppskriftina og hafa réttinn sem aðalrétt og hann sómir sér einkar vel á hlaðborði í hádegi. Þessi uppskrift miðast við forrétt fyrir allt að sex.

Óþarfi er að segja nokkrum manni að fiskurinn sé hrár!

 • 600 gr. þorskflök (eða annar hvítur fiskur)
 • 12 humarhalar skelflettir
 • safi úr 12-15 limeávötum
 • 1 rauð paprika fínt söxuð
 • 1 laukur grófsaxaður
 • Hálfur grænn chilí fínt saxaður
 • 3 hvítlauksrif fínsöxuð
 • 2 tómatar afhýddir án kjarna og grófsaxaðir
 • 2 msk fínt saxaður kóríander (geymið hluta til skreytingar í lokin)
 • 5 msk ólífuolía
 • 2 msk hvítvínsedik
 • Salt og svartur pipar

Hreinsið þorskflökin og skerið í ræmur eða ferninga 3×3 cm. Raðið fiskinum í ílát, grunnt fat eða skál, og hellið limesafanum yfir þannig að fljóti yfir fiskinn. Bætið humrinum við. Lokið ílátinu og setjið í kæli í 4-5 klukkustundir. Veltið við annað slagið af varfærni. Þegar þessar klukkustundir eru liðnar hefur limevökvinn lokið hlutverki sínu og við blasir þéttur hvítur og stinnur fiskurinn. Hellið vökvanum.

Skerið papriku, lauk, chillí, hvítlauk, kóríander (munið að geyma hluta af kóríandernum í skreytingu) og tómata og setjið í skál. Blandið síðan olíu, ediki og kryddi saman við og hellið yfir fiskinn. Blandið vel saman og setjið í kæli í sólarhring eða svo.

Stundarfjórðungi áður en rétturinn er borinn fram er fiskurinn tekinn úr kælinum og látinn standa í stofuhita. Rífið kóríander yfir fiskinn og malið ögn af svörtum pipar. Berið réttinn fram á litlum diskum fyrir hvern og einn með humarhalana efst. Gróft brauð með heimagerðu pestói hæfir sem meðlæti.

Með þessu ferskt hvítvín, t.d. Sauvignon Blanc frá Chile eða Nýja Sjálandi.

 

Deila.