Kröftugur indverskur kókoskjúklingur

Það vantar ekki kryddin í þessa uppskrift en útkoman verður engu að síður merkilega mild þó vissulega sé smá „hiti“ í þessu indverska kókos-curry.

 • 1 kjúklingur bútaður niður eða um 1,2-1,4 kg af kjúklingabitum, t.d. leggir og læri
 • 1 dós kókosmjólk (4 dl)
 • 1 dl vatn
 • 10 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 3 sm bútur engifer, rifið
 • 2 laukar, fínsaxaðir
 • 1 tómatur, fínsaxaður
 • 3/4 dl olía

Kryddblanda

 • 2 tsk chiliflögur
 • 3 tsk mulinn kóríander
 • 2 tsk cumin
 • 1 tsk turmeric
 • 1/2 tsk salt

Byrjið á því að blanda saman öllum kryddunum sem eru í kryddblöndunni og hafið tilbúin í lítilli skál eða bolla.

Hitið olíuna á pönnu og mýkið laukinn á miðlungshita í 15-20 mínútur eða þar til hann hefur tekið á sig rauðbrúann lit. Hrærið reglulega í með sleif og passið hitann þannig að laukurinn brenni ekki.

Bætið pressuðum hvítlauk og rifnum engifer út á pönnuna og blandið vel saman við laukinn. Eldið saman í 3-4 mínútur til viðbótar.

Bætið næst kryddblöndunni út á pönnuna og blandið vel saman við laukinn. Þá eru kjúklingabitarnir settir út á og þeim velt vel upp úr kryddmaukinu. Bætið tómatinum út á og steikið í um 5 mínútur.

Hellið kókósmjólk og vatni á pönnuna og blandið vel saman við. Skrapið botninn á pönnunni með sleifinni til að leysa upp krydd sem kunna að hafa festst við.

Láti suðuna koma upp og leyfið síðan að malla undir loki í um 15 mínútur. Takið lokið af og látið malla í um 15 mínútur til viðbótar eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður og sósan hefur þykknað.

Berið fram með Basmati-grjónum og Naan eða þá bara venjulegu, nýbökuðu brauði.

Gott Alsace-vín, t.d. Rene Mure Gewurztraminer fellur vel að.

 

Deila.