Jólavínið í ár…

Hvert er nú jólavínið í ár er spurning sem heyrist oft. Eftirfarandi viðtal við Steingrím Sigurgeirsson birtist í jólablaði Morgunblaðsins 26. nóvember.

Mörgum þykir ómissandi að hafa gott vín á borðum yfir hátíðarnar. Vandað rauðvín eða hvítvín getur kórónað veislumáltíð og kampavín gerir öll hátíðleg tilefni gleðilegri.

Hér á landi er leitun að mönnum sem eru jafnfróðir og Steingrímur Sigurgeirsson um vín, en auk þess að hafa í um tvo áratugi skrifað greinar í Morgunblaðið um vín og góðan mat er hann höfundur bókarinnar Heimur vínsins og heldur með Maríu Guðmundsdóttur úti matar- og vínvefnum Vinotek.is.

Steingrímur er með margar þarfar ábendingar fyrir vínvalið þessi jólin, enda getur verið snúið að finna réttu flöskuna í fjölbreytilegu úrvalinu. Hann segir samt ekki endilega þörf á að kaupa allra dýrasta vínið til að gera góða veislu. „Finna má margar áhugaverðar tegundir í flestum verðflokkum og jafnvel þeim ódýrari. Ef við horfum til víns sem kostar undir 2.000 krónum hefur verið að koma inn hreint prýðilega gott vín og má nefna spennandi tegundir frá Spáni eins og rauðvínið Mo Monastrell, Ramon Roqueta og Beso de Vino. Aðeins dýrari eru flestar betri tegundir Rioja-víns en fyrir um 2.500 krónur má fá afbragðsgott vín úr þeirri fjölskyldu, t.d. Baron de Ley,“ segir Steingrímur.

Franskt eða ítalskt?

„Franskt vín er vitaskuld klassískt og Bordeaux hentar t.d. vel með flestu góðu kjöti, hvort sem er af hreindýri, lambi, nauti eða önd. Hægt er að fá ódýrara Bordeaux-vín á borð við Tour Puyblanquet eða Lamothe-Vinvent, eða fara upp í nokkru dýrari en jafnframt öflugri tegundir eins og Chateau d’Agassac eða Brio de Cantenac. Annar franskur kostur er Rhone en þar hafa verið svakalega flottir árgangar upp á síðkastið og jafnvel einfalda Cotes-du-Rhone-vínið sem kostar um 2.500 krónur er í fantaformi ef það kemur frá toppframleiðanda á borð við Guigal, Vidal-Fleury, Chapoutier eða Perrin.“

Ekki má heldur gleyma Ítalíu: „Þaðan kemur yndislegt matarvín frá öllum svæðum. Ég myndi mæla með frábæru hvítvíni í ýmsum verðflokkum, s.s. Lígúríuvíni frá Poggio dei Corleri, hinu stórkostlega Isole e Olena Chardonnay, arómatísku víni frá Terlan í Suður-Týról og svo hinu ódýra og góða Toskana-víni Per Siero Chardonnay. Í rauðu eru margar frábærar tegundir í boði frá Toskana, hvort sem er Chianti eða Brunello, Veneto eða Piedmont,“ segir Steingrímur og lítur loks til nýja heimsins. „Þar er hægt að fá frábært rauðvín á innan við 3.000 krónur, svo sem Morande Gran Reserva Syrah og Trivento Golden Reserve Malbec. Eða þá elegant og flott hvítvín og rauðvín frá Nýja-Sjálandi frá framleiðendum á borð við St. Clair og Spy Valley.“

Konfekt og flugeldar

Fyrir utan sjálfa jólasteikina er hægt að njóta víns með ýmsu öðru góðgæti sem haft er á borðum um jólin. „Með súkkulaðinu myndi ég t.d. mæla með kröftugu púrtvíni, en sniðganga vín alveg með jólasíldinni og bjóða frekar upp á staup af jólaákavíti og glas af jólabjór,“ segir Steingrímur.

Á gamlárskvöld er gaman að skála í kampavíni en Steingrímur segir algjöran óþarfa að leggja út fyrir dýrustu flöskunum, enda ekki á færi nema þeirra sem synda í peningum. „Það kampavín sem hér er fáanlegt er mestallt gott eða mjög gott og stendur alveg fyrir sínu. Það er líka til freyðivín frá öðrum svæðum sem er virkilega fínt og auðvitað mun ódýrara. Ég nefni t.d. Perelada frá Katalóníu eða Bailly Lapierre frá Búrgúnd í Frakklandi,“ segir hann. „Hið norðurítalska Ferrari er sömuleiðis með betra freyðivíni og slagar langleiðina í kampavín.“

Það má svo ekki gleyma að velja þurrt eða sætt kampavín eftir atvikum: „Ef kampavínið eða freyðivínið á að vera fordrykkur þarf það að vera mjög þurrt, en það vín er flokkað sem Brut. Með eftirréttinum er aftur á móti nauðsynlegt að hafa smásætu í víninu en það er flokkað sem Demi-Sec eða Semi Seco á spænsku.“

En hvernig hagar matgæðingurinn jólamatnum?

„Yfirleitt er hreindýr á borðum hjá okkur á aðfangadagskvöld, eftir að rjúpan varð ófáanleg. Með hreindýrinu vel ég eitthvert afbragðsrauðvín og yfirleitt verður Bordeaux fyrir valinu, vel þroskað Grand Cru-vín frá Pauillac eða St. Julien. Það hefur þó komið fyrir að Brunello eða annað stórfenglegt ítalskt vín kæmi í staðinn. Gott kampavín er svo alveg ómissandi.“

Púns og púrtvín fyrir gesti

Gaman er að skoða jólamatarhefðir í ólíkum löndum, og á hverjum stað er oft að finna sérstakar hefðir kringum áfenga drykki. Íslendingar hafa tileinkað sér suma af þessum siðum, en aðrir eiga enn eftir að berast hingað til lands. „Að snæða pannettone og gott ítalskt freyðivín á borð við Prosecco er mjög hátíðlegt á aðventunni og sama má segja um þá bresku jólahefð að bjóða upp á gott árgangspúrtvín eða gamalt Tawny Port,“ segir Steingrímur. „Eggjapúnsið er vinsælt í jólaboðum í Bandaríkjunum en hefur ekki fest sig í sessi hér – kannski af skiljanlegum ástæðum. Glöggið skandinavíska var vinsælt hér einu sinni en Íslendingar fóru offari í þeim efnum. Glögg er til í ýmsum myndum, og hið þýska Glühwein er til dæmis önnur hlið á sama peningi. Glögg getur verið ágætur drykkur, t.d. ef fenginn er einn bolli á köldum vetrardegi á þýskum jólamarkaði, en þetta er hins vegar alls ekki drykkur til að neyta í einhverju magni, líkt og varð vinsælt í íslenskum jólaglöggsveislum með skelfilegum afleiðingum,“ bætir Steingrímur kíminn við.

Belgmikil kristalsglös best

Þess þarf að gæta að njóta góðs víns með réttum hætti, en Steingrímur segir að ekki þurfi alltaf að fylgja ýtrustu hefðum út í æsar þegar velja þarf rétta glasið eða umhella. „Gott vín nýtur sín samt ekki til fulls nema í góðum glösum. Best eru stór og belgmikil kristalsglös. Það er hins vegar ekkert lífsspursmál að hafa glösin í hárréttri stærð. Fæstir eiga mörg sett af glösum og dugir fyllilega að verða sér úti um einn góðan umgang fyrir hvítt og annan fyrir rautt.“

Steingrímur segir að umhelling geti verið kostur. „Ungt og mikið vín „vaknar“ betur til lífsins ef því er umhellt með einhverjum fyrirvara og eldri gæðavín myndar gjarnan botnfall sem er gott að losna við með umhellingu. Fallegar karöflur eru líka mikil prýði á veisluborðum.“

Loks segir Steingrímur margar þumalputtareglur til um vínval, og sumar praktískari en aðrar.„Ef rétturinn er bragðmikill, t.d. villibráð, þarf vínið sömuleiðis að vera kröftugt. Ef um fínlegan rétt er að ræða má vínið ekki valta yfir hann.“

Þegar kemur að hefðbundnum íslenskum jólamat minnir Steingrímur á að ekki dugar að miða bara við aðalhráefnið. „Það er oft nokkur sæta í réttum á íslenskum jólaborðum og þarf að hafa það í huga þegar vínið er valið.“ Fólk má svo heldur ekki vera feimið við að láta eigin smekk ráða för: „Mikilvægasta þumalputtareglan af þeim öllum er að velja eitthvað sem þér þykir gott – alveg sama hvað allir aðrir segja.“

Fjör frekar en bragðgæði

Franska jólavínið Beaujolais Nouveau eru í margra huga forboði jólanna. Steingrímur segir Beaujolais-vín sem vín yfirleitt ekki afskaplega merkilegt, en fyrst og fremst skemmtilegt fyrirbæri sem gaman er að bragða á til gamans. „Það eru orðin ansi mörg ár síðan Beaujolais Nouveau rak á mínar fjörur og ég hef ekki smakkað árganginn í ár. Það hefur dregið mjög úr vinsældum þessa víns hér á landi sem annars staðar eftir að æðið náði hámarki fyrir svona 15-20 árum, en eftir sem áður upplifun að smakka t.d. á kaffihúsunum í París,“ segir Steingrímur og bætir við að Beaujolais Nouveau eigi vart heima á jólamatarborðinu. „Hefðbundið Beaujolais væri þá betri kostur, enda er Beaujolais ágætis vínræktarhérað.“

Deila.