Dönsk jólaönd

Önd er einhver vinsælasti maturinn hjá Dönum á jólunum. Yfirleitt er öndin fyllt með sveskjum og eplum og soðið af öndinni notað í sósuna.

  • 1 önd, um 3 kíló eða stærri
  • 1-2 græn epli (Granny Smith)
  • 1 væn lúka sveskjur
  • 1/2 lúka kastaníuhnetur (má sleppa)

Flysjið eplin og kjarnhreinsið. Skerið í bita. Skerið sveskjurnar í bita. Skerið kastaníuhneturnar í tvennt, þær þurfa að vera mjúkar og foreldaðar en slíkar hnetur eru seldar í stórmörkuðum.

Fyllið öndina með ávöxtunum og hnetunum, gott er að sauma fyrir. Saltið og piprið.

Hitið ofninn í 250 gráður. Setjið öndina í ofnskúffu með grind og látið bringurnar snúa niður.  Hafið 1-2 dl af vatni í ofnskúffunni. Eftir 15 mínútur er öndinni snúið við og hitinn lækkaður í 160 gráður. Eldið áfram í um klukkutíma eða þar til öndin er fullelduð. Tíminn fer eftir stærð andarinnar.

Sósan

Sósan er gerð með því að nota soðið sem safnast saman í ofnskúffunni. Byrjið á því að hella allri fitunni frá. Leysið upp skófarnar í ofnskúffunni með vatni og hellið í pott, þetta eiga að vera um 2 dl af kröftugu andarsoði. Látið malla og bætið rjóma saman við. Sjóðið saman og þykkið með maizena ef vill. Hellið vænni skvettu af púrtvíni saman við. Einnig má nota rifsberjasultu í staðinn fyrir púrtvínið. Bragðið loks til með salti og pipar.

Berið öndina fram með fyllingunni og sósunni. Dönum finnst líka ómissandi að hafa brúnaðar kartöflur og rauðkál með.

Reynið gott Cabernet Sauvignon frá Cile með, t.d. Cono Sur Vision eða Montes Alpha.

 

 

 

Deila.