Hreindýrasteik með villisveppamauksósu

Þessi uppskrift að hreindýrasteik kemur frá Úlfari Finnbjörnssyni og er að finna í bók hans „Stóru bókinni um villibráð“ sem nýlega kom út.

 • 4 x 200 g hreindýrasteikur
 • salt og nýmalaður pipar
 • 2 msk. olía
 • 30 g þurrkaðir villisveppir, malaðir í kaffikvörn eða matvinnsluvél
 • 1 dl portvín
 • ½ dl brandí
 • 2½ dl rjómi
 • ½ msk. nautakjötskraftur
 • sósujafnari

Gljáður skalottlaukur

 • 8-12 skalottlaukar
 • ½ l vatn
 • 2 msk. olía
 • 4 msk. sykur
 • 3 timjangreinar
 • 2 lárviðarlauf
 • 2 msk. balsamedik
 • 1 dl rauðvín
 • salt og pipar

Kóngssveppir

 • 4-6 kóngssveppir, skornir í báta
 • 1-2 msk. smjör
 • salt og nýmalaður pipar

Kryddið hreindýrasteikur með salti og pipar og steikið í olíu á vel heitri pönnu í 2 mínútur á hvorri hlið. Takið steikurnar af pönnunni og setjið í 180°C heitan ofn í 5-7 mínútur. Setjið sveppamulning á sömu pönnu ásamt portvíni og brandíi og sjóðið vínið niður um ¾. Bætið rjóma og kjötkrafti í sósuna og þykkið með sósujafnara. Smakkið til með salti og pipar.

Gljáður skalottlaukur

Setjið skalottlauk og vatn saman í pott, þannig að rétt fljóti yfir laukinn. Kveikið undir en takið pottinn af hellunni um leið og suðan kemur upp. Skrælið þá laukinn og steikið í olíu á pönnu þar til hann er orðinn fallega brúnn. Bræðið sykur á pönnu og látið hann brúnast. Bætið timjangreinum, lárviðarlaufum, balsamediki, rauðvíni, salti og pipar á pönnuna og sjóðið vökvann niður um ¾.

Kóngssveppir

Steikið sveppi upp úr smjöri á vel heitri pönnu í 2-3 mínútur og kryddið með salti og pipar.

Með hreindýrasteik á fátt betur við en gott Bordeaux, hér mætti t.d. bjóða fram Chateau d’Agassac.

Deila.