Kjúklingur með sítrónum, ólífum og kóríander

Það er norður-afrískur fílíngur í þessari uppskrift enda á hún rætur sínar að rekja til Marokkó. Kjúklingurinn kryddaður með kröftugri kryddblöndu og síðan eldaður með sítrónum áður en ólívum og kóríander er bætt saman við.

 • 1 kjúklingur bútaður í bita
 • 1 sítróna, skorin í þunnar sneiðar
 • 2 laukar, saxaðir
 • ca 75 g grænar, steinlausar ólífur
 • lúka af ferskum kóríander, fínsöxuðum

Kryddblanda

 • 5 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 1 tsk turmerik
 • 1 tsk reykt paprikukrydd
 • 2 tsk cummin
 • maldonsalt
 • 3-4 msk ólívuolía

Bútið kjúklinginn niður. Blandið pressuðum hvítlauk, turmerik, paprikukryddi, cummin, salti og olíu saman. Veltið kjúklingabitunum vel uppúr blöndunni.

Hitið olíu á pönnu og mýkið laukinn á miðlungshita í 4-5 mínútur. Bætið kjúklingabitunum út á pönnuna og brúnið í um fimm mínútur til viðbótar.  Bætið sítrónusneiðunum út á pönnuna og blandið vel saman. Hellið þá um 5 dl af vatni út á pönnuna og látið malla í um 25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður og sósan farin að þykkna. Veltið kjúklingabitunum reglulega á pönnuna. Bætið loks ólívunum út á og leyfið þeim að malla með í nokkrar mínútur.

Sáldrið loks söxuðum kóríander yfir og berið fram t.d. með tabbouleh couscous.

Deila.