Pasta með salvíu- og valhnetupestói

Kryddjurtir og hnetur eru góð uppistaða í pastasósu. Þetta er tilbrigði við pestó þar sem salvía kemur í stað basil og valhnetur í stað furuhnetna. Salvían er bragðsterk en ef þið viljið enn meira bragð þá getið þið aukið magnið af henni og dregið úr steinseljunni á móti.

  • 500 g pasta t.d. Fettucine eða Tagliatelle
  • 1 búnt flatlaufa steinselja
  • ca 10-15 salvíublöð
  • 2 msk nýpressaður sítrónusafi
  • 2 dl valhnetur, ristaðar
  • 75 g parmesanostur
  • 1,5 dl ólífuolía

Byrjið á því að setja valhneturnar á bökunarpappír inn í 200 gráðu heitan ofn. Ristið þær í um 10 mínútur. Þær eiga að dökkna en alls ekki að byrja að brenna. Takið út og leyfið að kólna.

Setjið í matvinnsluvél. Byrjið á því að mauka hnetur,hvítlauk, parmesan og krydjurtir. Bætið  sítrónusafan saman við og síðan olíunni í langri bunu. Bragðið til með salti og pipar.

Sjóðið pasta skv. leiðbeiningum. Blandið saman við pestóið ásamt 2-3 msk af pastasoðinu. Berið strax fram með meiri parmesan og nýmuldum pipar.

Deila.