Fennel- og kúrbítssalat með sítrónu og parmesan

Fennel er grænmeti sem er allt of lítið notað hér á landi. Það er hins vegar magnað, ekki síst þegar það hefur verið grillað eða steikt. Þetta salat er magnað t.d. með góðri nautasteik.

  • 2 fennelbelgir
  • 2 kúrbítar
  • 1/2 sítróna, safinn pressaður og börkurinn rifinn
  • 1 lúka basillauf, söxuð
  • 1 lúka grófrifinn parmesan
  • 1 lúka óreganólauf, söxuð
  • ólífuolía

Skerið endana af fennelbelgjunum og rífið af ystu blöðin ef ykkur líst ekki á þau. Skerið síðan í tvennt á lengdina og skerið síðan niður þunnt á lengdina.

Skerið kúrbítana niður í frekar þunnar skífur.

Veltið fennel og kúrbít upp úr ólífuolíu í sitt hvorri skálinni. Saltið og piprið.

Grillið í grillkörfu. Það er best að byrja á fennelinum, hann þarf mun lengri tíma. Grillið þar til að hann er orðinn mjúkur. Grillið næst kúrbítssneiðarnar.

(Í sjálfu sér er alveg hægt að gera þetta á pönnu líka. Þið fáið bara ekki „grilláferðina“. Mýkið fyrst fennel á pönnu og síðan kúrbít.)

Setjið fennel og kúrbít í skál. Blandið sítrónusafa og sítrónuberki saman við. Þá rifnum Parmesan-ostinum. (rífið hann á grófa hlutanum á rifjárninu). Þá er kryddjurtunum bætt saman við og loks vænni skvettu af ólifuolíu. Bragðið til með salti og pipar ef þarf.

Berið strax fram.

Deila.