Fransk-austurlenskur lax með engifer-vorlauk

Það væri líklega hægt að kalla þessa uppskrift fusion enda er hér blandað saman bæði evrópskum og asískum brögðum.

Við byrjum á því að gera einfaldan kryddlög sem að laxinn er bakaður með

 • 2-3 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 1 msk Dijon-sinnep
 • safi úr 1/2 sítrónu
 • 1/2 dl ólífuolía
 • 1 lúka fínsöxuð steinselja
 • 1-2  tsk fljótandi hunang
 • 1 tsk sojasósa
 • salt og pipar

Blandið öllu saman. Skerið beinsnyrt laxaflak í bita og raðið í eldfast form. Dreifið kryddblöndunni yfir bitana. Eldið í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur. Fer eftir þykkt flaksins. Það er líka tilvalið að grilla hann.

Á meðan er meðlætið undirbúið. Fyrst vorlaukurinn

 • 1 vænt búnt vorlaukur, skorinn í bita
 • 1 msk rifinn engifer
 • ólífuolía
 • sesamolía

Hitið ólifuolíu á pönnu og steikið vorlaukinn í nokkrar mínútur. Hrærið reglulega í með sleif. Þegar að hann fer að mýkjast (tekur ekki langan tíma) er engifer sett út á pönnuna og blandað vel saman við. Eftir 1-2 mínútur er slökkt á hitanum og nokkrum dropum af sesamolíu blandað saman við.

Kartöflu- og kjúklingabaunamús

 • 2 bökunarkartöflur (eða sambærilegt magn af öðrum kartöflum)
 • 1 dós kjúklingabaunir
 • ólífuolía
 • salt og pipar

Sjóðið kartöflurnar. Hellið vökvanum frá baununum. Maukið saman í matvinnsluvél ásamt vænni skvettu eða tveimur af ólífuolíu. Bragðið til með salti og pipar.

Berið allt fram með góðu hvítvíni, t.d. Riesling frá Alsace, t.d. Riesling Hugel.

Deila.