Grískur lambaborgari með jógúrtsósu

Það er ekkert náttúrulögmál að hamborgarar skuli vera úr nautakjöti. Lambakjöt hentar frábærlega í borgara og í þessari uppskrift nýtum við ýmislegt úr gríska eldhúsinu til að gefa borgaranum bragð. Með honum höfum við svo gríska jógúrtsósu og að sjálfsögðu heimabökuð brauð. TIl að breyta honum í grískan ostborgara má síðan nota fetaost.

Eini vandinn við lambaborgara er hins vegar sá að það er ekki hægt að kaupa lambahakk í kjötborðum. Það vandamál leysir Kitchen Aid á innan við mínútu. Við notuðum lamba ribeye en það má líka nota flesta aðra bita, þeir þurfa hins vegar helst að vera svolítið feitir og því mælum við ekki með bitum af innralæri.

 • 600 g hakkað lambakjöt
 • 1 lúka fínt söxuð steinselja
 • 1 msk Dijonsinnep
 • 1 hvítlauksgeiri
 • 1 tsk capers
 • fínt rifinn börkur af 1/2 -1 sítrónu
 • salt og pipar

Byrjið á því að hakka lambakjötið. Pressið hvítlaukinn og fínsaxið capers. (Það er líka hægt að skella hvítlauk og capers í gegnum hakkavélina með kjötinu). Setjið í skál og blandið varlega saman við fínsaxaða steinseljuna, sítrónubörkinn, salt og pipar. Mótið fjóra hamborgara úr kjötinu og geymið í kæli þar til að borgararnir eru eldaðir.

Með þeim þarf síðan eftirfarandi.

 • rauðlauk
 • tómata
 • sinnep (DIjon)
 • fetaost (fetakubbur)

Grillið eða steikið borgarana. Þegar að þeim er snúði við er muldum fetaosti stráð yfir. Skerið hamborgarabrauðin í tvennt og penslið með olíu. Setjið á grillið með skurðhliðina niður og hitið í smástund. Smyrjið neðri hluta brauðsins með sinnepi, setjið niðursneiddan rauðlauk og tómata á og síðan borgarann. Þá er settur á góður skammtur af grískri jógúrtsósu og borgaranum lokað.

Uppskriftin að grísku jógúrtsósunni, Tzatziki, er hér.

Uppskriftin að heimabökuðum hamborgarabrauðum er hér.

 

 

Deila.