Kjötbollur að hætti Frankie’s

Kjötbollur eru eitt af því sem Bandaríkjamenn hafa tekið úr ítalska eldhúsinu og gert að sínu. Þessi uppskrift er okkar útgáfa af uppskrift frá veitingahúsinu Frankie’s Spuntino í Brooklyn en þangað mun hún hafa borist frá Napólí á Ítalíu, ekki síst það að nota bæði furuhnetur og rúsínur í bollurnar. Pecorino-ost er hægt að fá í betri ostaborðum og ostabúðum. Það er líka hægt að nota Parmesan.

 • 800 g nautahakk
 • 2 brauðsneiðar
 • 1 dl rúsínur
 • 1 dl furuhnetur
 • 1 dl fínt rifinn Pecorino
 • 1 lúka fínt söxuð flatlaufa steinselja
 • 4 stórir hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 3 egg
 • heimatilbúið rasp
 • 2 tsk sjávarsalt
 • 1 tsk hvítur pipar

Byrjið á því að leggja brauðsneiðarnar í bleyti í vatni í smástund. Takið þær upp, kreystið mesta vatnið úr þeim og setjið í stóra skál. Setjið önnur hráefni í skálina (nema raspið) og blandið vel saman með höndunum. Bætið síðan raspi út í 1-2 msk í einu þar til að blandan er orðin þannig að hægt er að móta bollur með góðu móti. Þarf rúman 1 dl af raspi (þið gerið raspið með því að nota brauð sem farið er að harðna eða með því að rista brauðið í rist eða í ofni og mylja síðan niður í matvinnsluvél).

Mótið stórar kjötbollur. Miðið við að þær séu ca eins og mandarínur að stærð. Úr uppskriftinni eiga að koma 12 bollur.

Setjið smjörpappír á bökunarplötu og raðið kjötbollunum á plötuna. Eldið við 180 gráður í um hálftíma.

Á meðan gerið þið tómatasósu:

 • 5 dl tómatapassata
 • 1 laukur
 • 6 hvítlauksgeirar
 • óreganó
 • chiliflögur
 • rauðvínsskvetta (ef þið eigið það til)
 • ólífuolía

Saxið laukinn og sneiðið hvítlaukinn fínt. Hitið olíu í potti. Mýkið laukinn í nokkrar mínútur, bætið hvítlauknum út í , kryddið með óreganó og chiliflögum og eldið áframí 2 mínútur eða svo. Hellið rauðvínsskvettu í pottinn og látið sjóða niður. Bætið nú tómatapassata út í pottinn og leyfið þessu að malla í 20-30 mínútur.

IMG_9327

 

Setjið tómatasósu á diska og síðan bollurnar ofan á. Rífið Pecorino-ost yfir.

Það er auðvitað líka hægt að hafa pasta með, t.d. spaghetti eða tagliatelle og blanda því saman við tómatasósuna.

Sangiovese-vín frá Toskana passa mjög vel við þessar bollur, t.d. Cecchi Chianti.

Fjölmargar aðrar spennandi uppskriftir að kjötbollum finnur þú með því að smella hér.

Fleiri ítalsk-amerískar uppskriftir eru svo hér.

 

Deila.