Guðrún Jenný bloggar: Léttsaltaður þorskur á grænmetisbeði

Frændi minn, Tómas Máni, var að selja þennan líka fínasta léttsaltaða þorsk og humar í fjáröflunarskyni.  Mér finnst saltfiskur, þessi gamli góði með soðnum kartöflum og hamsatólg alveg óskaplega góður en aðrir fjölskyldumeðlimir eru ekki eins hrifnir.  Þessi fiskur sem Tómas Máni seldi mér er líka mun minna saltaður en þessi gamli góði sem maður á að venjast.  Slíkur fiskur kallar því á aðra eldunaraðferð heldur en bara gömlu góðu suðuna.  Ég taldi best að leita í smiðju Ítala þar sem íslenskur saltfiskur hefur verið herramannsmatur í marga áratugi.

Í bókinni Silfurskeiðin (e. the Silver Spoon) er aragrúi af góðum uppskriftum.  Bókin er samt ekki alveg að mínu skapi því að ég vil hafa mikið af myndum í mínum kokkabókum.  Ég fann nú samt eina uppskrift sem ég studdist við þegar þessi gómsæti fiskur var eldaður:

 • 800 léttsaltaður þorskur skorinn í stóra bita
 • 120 ml ólífuolía
 • 1 laukur sneiddur
 • 1 rauð papprika sneidd
 • 1 græn paprika
 • 300 g kartöflur sneiddar í þunnar sneiðar
 • 1 dós tómatar í dós (ekki þarf að nota safann úr dósinni)
 • cayennepipar að smekk – ath. hann er sterkur!
 • pipar
 • timian
 • steinselja
 • lárviðarlauf
 • ca 2 dl hvítvín
 • 100 g svartar ólífur

thorskur

Steikið fiskinn lítillega í helmingnum af ólífuolíunni.  Takið fiskinn af pönnunni og geymið á meðan grænmetið er undirbúið.  Steikið lauk og papriku í ca 5 mín, bætið þá tómötum og kartöflusneiðunum við og steikið áfram í ca 10 mín.  Setjið grænmetið í eldfast mót, piprið og setjið steinselju, timian og lárviðarlauf yfir grænmetið og hellið hvítvíninu yfir grænmetið.  Bakið í ofninum í ca 40 mín eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar.  Fiskurinn og ólífurnar settar yfir og rétturinn hafður í ofninum þar til ólífurnar eru orðnar heitar.  Berið fram með góðu salati.

Deila.