Pierre Sparr Crémant d’Alsace Brut

Freyðandi vín eru framleidd víðar í Frakklandi en í Champagne og líklega er óhætt að segja að í flestum helstu víngerðarsvæðum landsins megi finna einhverja framleiðslu freyðivína. Í Alsace eru freyðivín kölluð Crémant en það heiti er notað á nokkrum stöðum í Frakklandi yfir freyðivín sem eru framleidd með sömu aðferð og kampavín, þ.e. flöskugerjun.

Þrúgurnar sem notaðar eru í þetta Crémant-vín frá Pierre Sparr eru annars vegar Pinot Blanc og hins vegar Pinot Noir. Vínið er ljóst, fölgult á lit, freyðir þétt og fallega. Mjög þurrt, angan af grænu eplahýði, nokkuð míneralískt, kalksteinn, ger, sýrumikið. Vínið hefur góða fyllingu og kolsýran rennur þægilega saman við vínið. Vel gert freyðivín.

2.695 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.