Nutella-snúðar með glasúr

Það er rúm hálf öld liðin frá því að ítalska fyrirtækið Ferrero kynnti Nutella til sögunnar og þetta unaðslega heslihnetu- og súkkulaðikrem hefur notið ótrúlegra vinsælda síðan. Það sést kannski best á því að um fjórðungur allrar framleiðslu af heslihnetum í heiminum er notaður af Ferrero.

Nutella má nota á margvíslega vegu og er til dæmis alveg tilvalið á snúða eins og við sannreyndum í þessari uppskrift.

Byrjum á deiginu.  Við mælum með því að nota sama deig og í Cinnabonssnúðunum en þá uppskrift finnið þið með því að smella hér.

Fletjið deigið út í ferhyrnda lengju. Smyrjið deigið með Nutella. Þeim mun meira eftir því sem ykkur finnst Nutella vera betra. Smyrjið ekki alveg út í kantana.

Sáldrið kanil yfir Nutella-kremið.

Rúllið deiginu upp í þétta rúllu. Byrjið á breiðari hliðinni. Skerið deigrúlluna niður í bita. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og raðið snúðunum á plötuna.

Hitið ofninn í 200 gráður.

Bakið snúðana í um 10 mínútur.

Á meðan gerum við kremið:

  • 40 g smjör
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 dl flórsykur

Brærið smjörið. Blandið vanilludropunum saman við. Pískið flórsykri saman við smjörblönduna, smátt og smátt þangað til að kremið er orðið nægjanlega þykkt.

Takið snúðana úr ofninum og smyrjið kreminu á þá. Berið strax fram.

Fleiri hugmyndir fyrir sunnudagsbaksturinn finnið þið með því að smella hér.

Deila.