Það eru til nokkrar samsetningar sem að eru nær fullkomnar. Valhnetur og rósmarín eru ein af þeim. Það er hægt að nota þessa góðu samsetningu á marga vegu og ekki síst er tilvalið að búa til pestó en valhnetu- og rósmarínpestó með pasta fellur frábærlega að lambakjöti, t.d. kótilettum eða file.
Valhnetu- og rósmarínpestó
- 4 dl valhnetur
- ca 8 rósmarínstönglar
- 2-3 hvítlauksgeirar
- 2 dl rifinn parmesanostur
- 1 dl ólífuolía
- salt og pipar
Byrjið á því að rista hneturnar. Dreifið úr þeim á bökunarpappír á ofnplötu og eldið í 180 gráðu heitum ofni í 8-10 mínútur. Fylgist vel með þeim. Þær eiga að taka á sig dekkri og gullinn lit en mega ekki fara að brenna.
Leyfið hnetunum að kólna aðeins. Setjið í matvinnsluvél ásamt rósmarínnálunum og hvítlauksgeirunum. Maukið. Bætið olíunni saman við á meðan matvinnsluvélin er í gangi. Setjið í stóra skál og blandið rifna parmesanostinum saman við. Bragðið til með salti og pipar.
Sjóðið pasta. Það er hægt að nota ýmsar tegundir, t.d. tagliatelle eða orecchiette. Allra best er auðvitað að nota heimatilbúið pasta. Með því að smella hér sjáið þið leiðbeiningar um hvernig gera á heimatilbúið orechiette.
Bætið pastanu ásamt um 1/2 dl af pastasoðvatninu saman við pestóið og blandið vel saman.
Ef þið notið þetta með grilluðu lambi er fullkomið að hafa gott suður-franskt rauðvín með s.s. Tautavel.
Fleiri spennandi pestóuppskriftir finnur þú með því að smella hér.