Búðingur hennar hátignar

Þessi búðingur,  eða kannski er nær að kalla hann frómas, á rætur að rekja til vina okkar Norðmanna. Hann er vinsæll á jólaborðum þeirra og þykir ómissandi að mati margra. Er hann ýmist kallaður búðingur Maud drottningar eða Haugasundsdessertin. Nafnið má rekja til þess að hann var fyrst borin á borð fyrir Maud Noregsdrottningu og Hákon Noregskonung er þau áðu í Haugasundi í hringferð um Noreg í kjölfar krýningar Hákons árið 1906. Íbúar Haugasunds vildu að sjálfsögðu taka vel á móti hinum nýkrýndu konungshjónum og var þessi eftirréttur skapaður af matreiðslumeisturum bæjarins þeim til heiðurs.

  • 5 egg
  • 5 msk sykur
  • 5 blöð matarlím
  • 2 msk sjóðandi heitt vatn
  • 5 dl rjómi
  • 100 gr. suðusúkkulaði

Byrjið á því að þeyta rjómann og setjið hann inn í ísskáp. Rífið súkkulaðið fínt niður með rifjárni. Þeytið egg og sykur saman (cirka 10 min) með handþeytara.

Setjið matarlímið í kalt vatn á meðan. Kreystið vatnið úr matarlíminu og leysið það upp bolla með heita vatninu .  Hellið síðan heitu matarlímsblöndunni út í eggjablönduna og hrærið þari til hún hefur blandast jafnt saman við. Blandið  að lokum rjómanum varlega saman við eggjablönduna.

Setjið fyrst 1/3 af blöndunni  – eða allt eftir því hvað þið viljið hafa mörg lög í búðingnum – og setjið í botninn á stórri dessertskál. Setjið næst súkkulaði  og síðan sitt á víxl rjómablönduna og súkkulaðið til skiptis  þar til allt hefur klárast. Setjið þá dessertskálina inn í ísskáp og geymið í nokkra tíma eða jafnvel yfir nótt.

 

Deila.