Vín ársins 2015

Þó að manni finnist það hafa verið nánast í gær sem að ´vinárið var gert upp síðast þá er komið að því eina ferðina enn að horfa yfir farinn veg og draga fram þau vín sem athyglisverðust voru á árinu 2015. Alls höfum við tekið fyrir hátt í þrjú hundruð vín á þessu ári og flóran hefur verið fjölbreytt og gæði vínanna vissulega sömuleiðis.

Ef við reynum að sjá einhver „trend“ út úr því sem hefur verið að gerast þá er greinilegt að framboð á góðum og jafnvel mjög góðum vínum hefur verið að aukast og að neytendur eru farnir að fikra sig upp verðstigann á nýjan leik. Sala á dýrari vínum hefur aukist töluvert og sömuleiðis hafa hin almennu „sársaukamörk“ almenna neytandans verið að færast upp. Lengi vel virtist þau vera föst í kringum tvö þúsund krónurnar (1.999 kannski öllu heldur) en nú eru þau greinilega að færast nær 2.500 krónur, sem er gott því að þessar viðbótarkrónur fara að mestu leyti í sjálft vínið en ekki opinber gjöld.

Við sjáum líka framhald á þeirri þróun að evrópsku vínin eru að sækja verulega í sig veðrið. Það hafa streymt inn mörg afbragðsvín frá Spáni og við erum líka farin að sjá vín frá fleiri héruðum en áður var. Ribera del Duero-vínin eru komin á flug og hver veit nema við förum líka bráðum að kveikja betur á hversu frábær vínin frá Rias Baixas í Galisíu geta verið. Frökkunum hefur sömuleiðis fjölgað, bæði dýrari vínum frá klassísku héruðunum en líka frá Loire og suðvestur-Frakklandi að maður tali nú ekki um áframhaldandi sókn Languedoc-Roussillon. Ítalía á líka marga unnendur og það koma ávallt ný og spennandi vín þaðan.

Bestu hvítvínskaupin

Bestu hvítvínskaupin þetta árið hafa að okkar mati verið frá Spáni og þar er óhjákvæmilegt annað en að draga fram Chardonnay-vínið frá Pago de Cirsus, vín sem heillaði upp úr skónum frá því að nefið var fyrst rekið ofan í glasið. Það hefur líka verið frábært að sjá  nágrannana í Portúgal vera að koma inn á kortið með frábærum vínum frá Alentejo á borð við rauðvínið Esporao og hvítvínið Duas Castas, sem er með betri hvítvínskaupum þetta árið.

Bestu rauðvínskaupin

Bestu rauðvínskaupin koma annars vegar frá Frakklandi og hins vegar frá Spáni. Tvö vín frá klassískum svæðum. Annars vegar Rioja-vínið Muga sem að ár eftir ár skilar öllu því sem maður vill fá frá Rioja og meira til.  Hins vegar „þriðja“ vínið frá Chateau Cantenac Brown í Margaux  sem heitir Chateau Brown-Lamartine. Þetta er skiki af Grand Cru-ekru hússins sem lendir utan Margaux-skilgreiningarinnar og er því selt sem einfalt „AOC Bordeaux“ og kostar bara brot af verði stóra vínsins. Jafntefli á milli þessara tveggja. Við smökkuðum bæði 2010 og 2011 af þessum vínum á árinu og þau eru bæði frábærir fulltrúar sinna árganga á „hlægilegu“ verðu fyrir Bordeaux vín af þessu kalíber.

Vín ársins

En hvað með vín ársins? Það koma all nokkur til greina.  2010-árgangurinn frá Tourelles de Longueville er eitthvert besta vín sem að við tókum fyrir á þessu ári og einnig voru það gleðitíðindi að sjá vín frá þorpinu Vinsobres í Rhone og það ekki neitt slor frá vínhúsinu Domaine Jaume. En þegar upp er staðið ætlum við að fara til Ítalíu með vín ársins, og það ekki í fyrsta skipti. Það er vínið Selvapiana Bucherciale 2011 frá Chianti Rufina sem er vín ársins að þessu sinni.  Rufina er minnsta en líka eitthvert magnaðasta undirsvæði Chianti. Ekran Bucerchiale er rúmir tólf hektarar að stærð og í um 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Sumarið 2011 var hagstætt fyrir vínrækt í Rufina en eitt af því sem setti mark sinn á árganginn er mikil hitabylgja sem skall á héraðinu í ágúst og flýtti uppskerinu nokkuð. Þrúgutínslan hófst síðustu daga ágústmánaðar sem hefur aldrei gerst áður.

Gleðilegt ár, sjáumst 2016

 

Deila.