Borg Brugghús og Malbygg með sannkallaða áramótasprengju

Undanfarin ár hefur Borg Brugghús sent frá sér áramótabjór sem hefur verið samvinnuverkefni þeirra við önnur íslensk brugghús. Árið 2016 fengum við „collab“ með Gæðing og í fyrra voru það Brothers Brewery frá Vestmanneyjum.

Í ár er komið að Malbygg sem líklegast hefur verið heitasta nýja brugghúsið á þessu ári enda sent frá sér frábæra bjóra og þá sér í lagi skýjaða IPA bjóra. Þeir enda árið sem besta brugghús landsins samkvæmt Untappd og því er þetta „collab“ með Borg afar skemmtilegt. Það má segja að Borg Brugghús hafi verið frumkvöðlar hér á landi í IPA bjórum og Úlf-línan þeirra verið afar vinsæl frá því að fyrsti Úlfurinn kom fram á sjónarsviðið árið 2011.

Áramótastaupið Nr. C19 kemur því með talsverðar væntingar en auðvelt er að segja frá því að bjórinn stenst þær væntingar og gott betur. Hér er humlasprengja á ferðinni með gríðarlega miklum ávaxtakeim. Galaxy og Citra humlar eiga sviðsljósið en svo er einnig örlitlu hunangi bætt í bjórinn. Þetta er blanda sem hefur sést áður í skýjuðum IPA bjórum en Trillium í Boston hafa bruggað hunangsbætta IPA bjóra í einhvern tíma undir nafninu „Cutting Tiles“. Ef það er fyrirmyndin að þá er eftirmyndin enn betri. Líklegast er hér á ferðinni það besta sem hefur komið í „New England“ stílnum á árinu.

Áramótastaupið Nr. C19 mætir í ÁTVR föstudaginn 21. desember í afar takmörkuðu upplagi.

Deila.