VÍN 101: Þrúgurnar gefa karakterinn

Alls eru til um þúsund mismunandi afbrigði af vínþrúgum í heiminum, þar af er hins vegar einungis rúmlega 200 notaðar til víngerðar í einhverjum mæli og enn færri skipta verulegu máli.

Á töflunni hér til hægri er að finna lista yfir þær tíu vínþrúgur sem eru mest ræktaðar í heiminum. Flest nöfnin könnumst við örugglega við og ekki kemur á óvart að sjá Cabernet Sauvignon tróna þarna efst. Þarna eru sex rauðar þrúgur og fjórar hvítar en tvær þeirra eru ekki eins þekktar og hinar. Airén er þrúga sem er mjög útbreidd á Spáni, hún er mikið ræktuð en við sjáum hana nær aldrei nefnda á flöskumiðunum. Samt eru einungis örfá ár síðan að hún var mest ræktaða þrúga í heimi. Fyrst og fremst er hún notuð til brandí-framleiðslu. Í tíunda sæti er svo Trebbiano Toscano, þrúga sem að er heldur ekki þekkt fyrir mikil einkenni. Hún er notuð í (yfirleitt ódýr) hvítvín á Ítalíu en í Frakklandi þar sem að hún heitir Ugni Blanc er hún fyrst aðallega ræktuð í Cognac og vínið eimað sem grunnvín koníaks.

Vínþrúgur sem notaðar eru til víngerðar koma af stofni sem nefnist á latínu Vitis Vinifera og eru allar upprunnar á Miðjarðarhafssvæðinu þótt margar þeirra séu nú ræktaðar um allan heim.

Einkenni þeirra eru mjög mismunandi og þær dafna með misgóðum hætti við ólík ræktunarskilyrði. Sumar þrúgur þurfa heit og sólrík svæði til að ná hámarksþroska, aðrar njóta sín best við svalari skilyrði.

Margar þrúgur eru ræktaðar á afmörkuðum svæðum og njóta takmarkaðrar lýðhylli en aðrar eru orðnar að sannkölluðum stórstjörnur. Nær allar eru þær franskar að uppruna.

Þekktust er líklega Cabernet Sauvignon sem eins og við sáum er nú mest ræktaða þrúga heims. Hún er upprunalega frá Bordeaux í Frakklandi og uppistaða frægustu vína heims í félagi við þrúguna Merlot. Þessar tvær þrúgur, sem notaðar eru í blöndur allra Bordeaux-vína í mismunandi hlutföllum, er nú að finna í öllum helstu víngerðarlöndum.

Hvort sem farið er til Napa í Kaliforníu, Bolgheri á Ítalíu, Coonawarra í Ástralíu eða Maipo í Chile. Alls staðar er Cabernet Sauvignon í mikilvægu hlutverki. Það sama má segja um Merlot þótt þau vín nái ekki jafnoft sömu hæðum og Cabernet-vínum.

Aðrar þrúgur Bordeaux hafa ekki náð sömu útbreiðslu s.s. Petit Verdot og Cabernet Franc. Malbec hefur hins vegar skapað sér sérstöðu í Argentínu og Carmenere er að öðlast nýtt líf í Chile.

Í Rhone og Suður-Frakklandi er að finna aðra þrúgu sem náð hefur alþjóðlegri útbreiðslu, Syrah eða Shiraz eins og hún er kölluð í Ástralíu og raunar víðar ef menn eru frekar að sækjast eftir því að gera vín í stíl Ástralíu en Frakklands. Aðrar helstu þrúgur Suður-Frakklands eru ekki eins frægar þótt til dæmis Grenache og Mourvédre megi víða finna, ekki síst á Spáni. Þar heita þær Garnacha og Monastrell.

Þriðja stóra rauðvínshérað Frakklands er Bourgogne og þar er ein rauð meginþrúga, Pinot Noir. Hún er erfiðari í ræktun og gerir meiri kröfur til aðstæðna. Yfirleitt nýtur hún sín best á svalari ræktunarsvæðum og er því helst að finna þar sem sjór temprar loftslag eða á vínekrum í töluverðri hæð. Við slíkar aðstæður skilar hún frábærum vínum t.d. á Nýja-Sjálandi, í Suður-Afríku og Kaliforníu. Hún hefur einnig fundið kjörlendur í Oregon í Bandaríkjunum og í Baden í Þýskalandi (þar sem hún heitir Blauer Spatburgunder). Pinot Noir er raunar einnig algeng í Champagne við kampavínsframleiðslu.

Hugað að Brunello-þrúgunum í Montalcino.

Sumar þrúgur eru hafa náð frábærum árangri á heimaslóðum en hafa ekki náð mikilli alþjóðlegri útbreiðslu. Í þeim flokki eru til dæmis Tempranillo, sem er notuð í flest betri vín Spánar, t.d. í Rioja, Ribera del Duero og Toro. Eða þá ítölsku þrúgurnar Sangiovese (Chianti og Brunello í Toskana) og Nebbiolo, Dolcetto og Barbera (Barolo og Barbaresco í Piedmont).

Þessu til viðbótar eru svo fjölmargar þrúgur, sem vissulega gefa af sér frábær vín á sínum heimaslóðum, en hafa aldrei náð neinni útbreiðslu. Portúgal er til dæmis heimkynni margra þrúgna og sömuleiðis Grikkland. Í Austurríki eiga menn Zweigelt og Blaufrankisch og þrúgur Ítalíu sem falla í þennan flokk skipta tugum. Primitivo í Púglía, Nero d’Avola á Sikiley , Lagrein í Alto Adige og Corvina í Veneto svo einhverjar séu nefndar.

Næst: Hvað með hvítu þrúgurnar?

Deila.