101

Hótelið 101 markaði ákveðin tímamót þegar það opnaði dyr sínar í mars 2003. Það var fyrsta íslenska boutique-hótelið. Lítið, hrikalega hipp og kúl og hugsað fyrir hverju einasta smáatriði í hönnun og skreytingum. Það var greinilegt að nýtt Ísland var að fæðast, alþjóðlegt og spennandi og … jæja það héldum við að minnsta kosti þá.

Þarna gistu stjörnurnar og fyrirmennin sem sóttu Ísland heim og þarna lögðu jafnt íslenskir kaupsýslumenn á ráðin um hvernig þeir ætluðu að sigra heiminn sem fulltrúar erlendra vogunarsjóða um hvernig hægt væri að kaffæra krónuna og Ísland í leiðinni. Enginn bar í bænum var eins heitur og sá á 101.

Einungis rúmlega sex ára gamalt og um margt orðið að sögulegum minnisvarða. Rétt eins og Hótel Borg varð á á fyrri hluta síðustu aldar tákn lítillar þjóðar sem sóttist eftir sjálfstæði varð 101 að tákni lítillar þjóðar sem flaug of nálægt sólinni.

Það breytir hins vegar ekki því að 101 er jafnglæsilegt í dag og þegar það opnaði árið 2003. Þrátt fyrir að mörg önnur lítil hótel og artí-smartí barir og veitingastaðir hafi opnað síðan nær enginn þeim tímalausa elegans sem einkennir hönnun Ingibjargar Pálmadóttur á 101.

Frá upphafi var líka hægt að fá virkilega fínan mat á 101 og það á verði sem tók fremur mið af verði kaffihúsana í næsta nágrenni en betri veitingastaða bæjarins. Sem betur fer hefur það ekki breyst. Þetta er enn einn af mínum uppáhalds hádegisstöðum enda fær maður yfirleitt góðan fisk og súpu fyrir tiltölulega lítinn pening.

Á kvöldin er það stemmningin sem lokkar, hún er ósvikin “lounge”-stemmning með dempaðri lýsingu og tónlist sem maður skynjar meira en heyrir. Matsalurinn stílhreinn og Cristofle-hnífapör, Spiegelau-glös og hvítar tauþurrkur hvíla á svörtum borðplötunum. Við urðum hreinlega að panta Cosmo og Jarðaberja Mojito svona til að passa inn í stemmninguna á meðan maður maulaði ristaða flatbrauðið með chutney sem ávallt kemur í upphafi.

Í forrétt völdum við okkur nautacarpaccio og saltfiskstartar. Kjötið var í þunnum fínum sneiðum með parmesan og klettasalati. Olían hefði mátt vera aðeins betri en á heildina litið hið ágætasta carpaccio, kjötið sá til þess.

Saltfisktartarið var hnökralaust, saltfiskurinn alveg mátulega útvatnaður og niðurrifinn með ólífum og fersku salati. Það var ekki skilin eftir arða..

Frá upphafi hafa hamborgarar og samlokur verið fastar á matseðlinum og oft hef ég hugsað með mér að hvergi í bænum séu borgararnir betri.  Heimatilbúinn sirloinborgarinn var safaríkur og bragðmikill, borinn fram með stökku salati og tómötum til hliðar ásamt hvítlauksaioli, virkilega góðu, með góðu chilibiti. Eina sem maður hefði viljað frekar var stærri hamborgari en 180 gramma!

Þorskhnakki vafinn í Parmaskinsku var ágætlega þykkur og létteldaður og rann vel saman við milda sósuna  Það eina sem við vorum alveg ekki með á diskinum var bráðinn Mozzarella út til hliðar á diskinum,  sem þjónaði litlum tilgangi.

Espresso að lokinni máltíð var sterkur og fínn samkvæmt bókinni og þjónustan skotheld. Starfsliðið á 101 hefur alla tíð verið skilvirkt, kurteist og agað og ég man eiginlega ekki eftir einu einasta skipti þar sem maður haft eitthvað út á þjónustuna að setja. Þessi heimsókn var engin undantekning.

Vínlistinn tekur reglulega breytingum, oftast er þar eitthvað sniðugt að finna. Minna núna en oft áður þó á sæmilega viðráðanlegu verði. Við völdum okkur hins vegar Catena Malbec sem var á ágætu verði og small vel að öllum réttunum, meira að segja þorskhnakkanum.

101 fær þrjá og hálfa stjörnu og gælir jafnvel við þá fjórðu vegna andrúmslofts og þjónustu.

 

 

Deila.