Columbia Crest vín ársins hjá Wine Spectator

Það vekur alltaf töluverða athygli þegar bandaríska tímaritið Wine Spectator birtir lista sinn yfir 100 bestu vín ársins. Hann hefur nú litið dagsins ljós og vínið sem trónar á toppnum er frá framleiðanda sem Íslendingum er að góðu kunnur eða Columbia Crest í Washington-ríki í Bandaríkjunum.

Nánar tiltekið er það Cabernet Sauvignon Columbia Valley Reserve 2005 sem er vín ársins 2009.

Í öðru sæti kemur svo hið spænska Numanthia-Termes Toro Termes  2005 og í þriðja sæti er svo Domaine de Vieux Télegraph 2007 frá Chateauneuf-de-Pape.

Það hefur verið nokkuð misjafnt milli ára hversu dýr vín hafa toppað hjá Wine Spectator og vekur athygli að tvö efstu vínin í ár kosta bæði undir 30 dollurum.

Á listanum eru svo ýmis vín sem hafa verið eða eru fáanleg á Íslandi. Í fimmta sæti er til dæmis Castello di Brolio frá Barone Ricasole og annað Toskanavín, Flaccianello frá Fontodi í því áttunda. Brunello-vínið Castelgiocondo frá Frescobaldi, sem lengi var selt hér á landi, er í fimmtánda sæti, hið argentínska Bodeca Colomé Malbec er í 33. sæti, Peter Lehman Barossa Shiraz í 54. sæti og Trimbach Riesling í 55. sæti.

Terrunyo Carmenére frá Concha y Toro er í 63. sæti, Bodega Catena Zapata Malbec í 69. sæti, Jacob’s Creek Riesling í 73. sæti og Stump Jump Shiraz frá d’Arenberg í 82. sæti.

Hin austurríski Brundlmeyer er svo í 93. sæti með Gruner Veltliner Berg-Vogelsang.

Deila.