Vín vikunnar

Vínótekið tók sjö ný vín til umfjöllunar að þessu sinni og svo vill til að þau eru öll frá hinum sígildu vínræktarlöndum Gamla heimsins: Frakklandi, Spáni og Ítalíu, þrjú hvít og fjögur rauð.

Ef við byrjum á frönsku vínunum þá var forvitnilegt að smakka samhliða tvö vín frá Alsace af árganginum 2007 sem bæði eru framleidd úr þrúgunni Pinot Gris. Annars vegar Pfaffenheim Pinot Gris 2007 og hins vegar Willm Pinot Gris 2007. Vínin eru bæði mjög góð en að sama skapi gjörólík í stílnum, Willm ferskt og ljúft, Pfaffenheim kryddaðra og reykugra og dýpra.

Ef við höldum suður af Alsace komum við til Búrgund eða Bourgogne þar Pinot Noir þrúgan ræður ríkjum í rauðvínunum. Joseph Drouhin Cote de Beaune 2006 er vín sem byggir meira á mýkt og fágun en hreinu afli.

Ítölsku vínin sem komu til umfjöllunar voru tvö, bæði þeirra rauð. Í fyrsta lagi enn eitt vínið frá hinum frábæra framleiðanda Barone Ricasole, það heitir Campo Ceni 2007 og er IGT-vín úr Sangiovese með smá Merlot blandað saman við. í síðustu viku fjölluðum við um hið yndislega Negroamaro-vín frá Feudi di San Marzano. Í þessari viku kom Feudi di San Marzano Primitivo 2007 til umfjöllunar, massaður bláberja- og sólberjasafi.

Loks til Spánar þaðan sem við smökkuðum eitt hvítt og rautt. Torres Gran Vina Sol 2007 er svolítið Búrgundarlegt hvítvín úr þrúgunni Chardonnay með smá Parellada saman við. Og frá sléttum Valdepenas í La Mancha suður af Madrid kemur Senorio de Los Llanos Gran Reserva 2002, eikað Tempranillo-vín á góðu verði.

Smellið á nafn vínanna til að lesa nánar um þau.

Myndskreytingin að þessu sinni er frá Búrgund, gott ef þetta eru ekki ekrur í Cote de Beaune.

Deila.