Parés Baltà Blanc de Pacs

Þetta lífrænt ræktaða katalónska hvítvín kemur frá vínhúsinu Parés Baltà, sem er lítið fjölskyldufyrirtæki í Katalóníu á Spáni sem á sér mjög skemmtilega sögu og flokkast í hóp „Íslandsvina“.

Vínrækt á ekrunum í kringum víngerðar Parés Baltà hófst árið 1790 en segja má að fyrirtækið í núverandi mynd hafi orðið til árið 1978 er Cusiné-fjölskyldan festi kaup á Parés Baltà. Þrjár kynslóðir starfa nú við fyrirtækið en þa er þriðja kynslóðin, frændurnir og systkinabörnin Joan og Josep, sem stjórna fyrirtækinu. Eiginkonur þeirra Maria Elena og Marta Casas, sjá hins vegar um vínræktina og víngerðina.

Joan og Maria Elena sérstaklega hafa tekið miklu ástfóstri við Ísland og lengi átt sér þann draum að vín þeirra yrðu fáanleg hér – sem hefur helst strandað á því að þetta er toppfyrirtæki og framleiðslan dýr. Ég hef nokkrum sinnum átt kost á því að smakka mig í gegnum línuna frá Parés Baltà og vínin eru frá því að vera mjög góð yfir í að vera þannig að maður þarf að nota lýsingarorð á borð við stórkostleg eða hreinlega geggjuð.

Síðast gafst mér kostur á að smakka vínin á spænsku vínsýningunni Fenavin í vor. Það var því gaman að frétta af því að innflutningur væri hafin á vínunum frá Parés Baltà en vissulega óttaðist maður að þau yrðu of dýr fyrir markaðinn. Þeim mun meiri var ánægjan að sjá að vínin, sem eru úr upphafslínu fyrirtækisins, eru í neðri flokki verðlags vína, eins og gengið er í dag.

Hvítvínið Pares Balta Blanc de Pacs 2008 er blanda af þrúgunum Parellada, Xarello og Macabeo. Ljóst á lit með angan af perum og hvítum blómum, grösugt, ferskt og sýrumikið, góð lengd. Þetta er létt Miðjarðarhafsvín en með töluverðan karakter og þokka.

Sem fordrykkur eða með t.d. humar og pasta.

1.590 krónur.

 

Deila.