Gráðostur er skemmtilegt hráefni í sósur og hér notum við hann líka til að fylla nautasteikurnar. Það þarf að hafa nokkur snör handtök þegar rétturinn er eldaður – því best er að útbúa allt rétt áður en diskarnir fara á borðið – og því er gott að vera búinn að undirbúa allt áður. Mæla upp það sem á að fara í sósuna og hafa til taks.
6-800 grömm af nautalund, skorin í fjórar steikur
1 pakki gráðostur
1 skalottulaukur, fínsaxaður
1/2 dl gin
2 dl rauðvín
2 dl matreiðslurjómi
2 msk sojasósa
smjör, pipar og salt
Skerið rauf í hliðina á hverri steik sem rúmar um eina matskeið af gráðosti. Lokið raufinni með tannstönglum.
Brúnið steikurnar í smjöri á pönnu þar til þær hafa tekið á sig góðan lit, svona 3-5 mínútur eftir þykktinni á steikunum. Passið upp á að osturinn bráðni ekki og renni úr. Bætið skalottulauknum út á pönnuna og leyfið honum að mýkjast í um mínútu.
Hellið nú gininu út á pönnuna og leyfið því að gufa alveg upp. Ef þið viljið vera flott á því þá „flamberið“ þið steikurnar með því að kveikja varlega í gininu áður en því er hellt yfir. Slökkvið samt á viftunni áður. Það breytir engu um bragðið hvort að þið flamberið eða ekki – þetta er meira „sjóv“ fyrir gestina.
Takið steikurnar af pönnunni og setjið á fat og inn í 180 gráðu heitan ofn.
Hellið sojasósunni á pönnuna og síðan rauðvíninu. Sjóðið niður um 2/3. Bætið rjómanum og afganginum af gráðostinum saman við og eldið þar til úr er orðin þykk sósa.
Takið kjötið úr ofninum og setjið á (helst heita) diska. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið sósunni yfir. Berið fram með kartöflubátum og fersku klettasalati.
Með þessu þarf alvöru rauðvín. T.d. hágæða Bordeaux á borð við Chateau Teyssier eða öflugan Cabernet á borð við Mas La Plana.