Bjór á Dill

Það getur verið nokkur kúnst að setja saman vín með mat og á betri veitingastöðum eru starfandi sérstakir vínþjónar eða sommelliers sem sinna þeim starfa að ráðleggja gestum um slíkar samsetningar. En er hægt að nota bjór með sama árangri í margrétta sælkeraseðli og það íslenskan bjór frá einum framleiðanda?

Matreiðslumeistarar Dill í Norræna húsinu brugðu á leik í síðustu viku með bruggmeistara Ölvisholts og settu saman margrétta matseðil sem hægt væri að para við mismunandi bjóra frá upphafi til enda. Útkoman var mjög spennandi enda bruggar Ölvisholt bjóra á heimsmælikvarða.

Máltíðin byrjaði á hvítbjórnum Freyju, vel kældum og framreiddum í kampavínsglasi. Freyja er í anda belgísku witbier-bjóranna, bragðbættur með appelsínu og kóríander, kvenlegur og þokkafullur. Með forréttinum, rækjum og færeyskri hörpuskel í súrmjólkurfroðu kom Freyjan aftur inn, í þetta skipti nær stofuhita.

Næst kom hinn magnaði Suttungasumbl, sem var Þorrabjór Ölvisholts í ár. Suttungasumbl, en Suttungssynir sátu eins og kunnugt er í helju og þömbluðu sumbl, er í belgískum stíl og krækiberjum og bláberjum bætt við eftir gerjum. Hann er kröftugur, rauðleitur og alveg hreint einstakur, einn sá besti sem Ölvisholt hefur sent frá sér. Blómstraði með kartöfluréttinum þar sem mjúk kartöflumús og soðnar kartöflur léku við grísasíðu (beikon) og nýklippta hvönn úr mýrinni.

Skjálfta og Móra tókst ágætlega til við að vera förunautar skötusels og andarbringu. Það var þó kannski helst þar sem maður fór að sakna hvítvíns og rauðvíns, þótt bjórarnir hafi staðið fyrir sínu.

Með ostunum, sem voru ferskostur frá Eirný í Búrinu, reyktur og kryddjurtabættur hjá matreiðslumönnum Dillsins, og „sá blái“ frá Helga á Akurnesi, einhver besti mygluostur – ef ekki sá besti – sem Ísland hefur átt, kom jólabjórinn 2009 og stal senunni, reyktur Bock, sem smellpassaði. Frábær pörun.

Með eftirréttunum – ekki síst skyri frá Erpsstöðum og mjúkum marengs – var það hinn dökki og súkkulaðikenndi porter Heilagur papi (í „bönnuðu“ flöskunum),sem gerði allt sætvín óþarft.

Þetta var frábært framtak og sýnir hvað hægt er að gera með hreinræktaðri íslenskri matargerð og drykkjum. Hvað er alltaf verið að halda þessu útlenska vínsulli fram? Við getum alveg verið sjálfbær. Að minnsta kosti einstaka sinnum.

Deila.