Það er andi Mið-Austurlanda sem svífur yfir þessum rétti, innblásturinn sóttur til að mynda til líbanskrar matargerðarhefðar. Við byrjum á því að gera kryddlög fyrir kjötið, þá tabbouleh með búlgur-hveiti og loks eggaldinkrem.
Kjötið er marinerað í að minnsta kosti klukkustund og síðan skellt á grillið í um 3 mínútur á hvorri hlið. Athugið að við notum einungis vöðvann, það þarf að hreinsa fituna af kjötinu. Það mál líka nota t.d. lambainnralæri eða lambalundir.
Kryddlögur
- 1/2 dl rauðvín
- 1/2 dl ólívuolía
- 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
- 2 sm engiferrót, rifin
- 2 msk fínsöxuð steinselja
- salt og pipar
Blandið öllu saman í skál. Skerið fituna af kjötinu og látið liggja í leginum í að minnsta kosti klukkutíma.
Tabbouleh
- 5 dl Búlgur (eða couscous)
- 1 l vatn
- 1 búnt steinselja (helst flatlaufa), söxuð
- 1 lúka myntulauf, söxuð
- 2 tómatar, kjarnhreinsið og saxið
- safi úr hálfri sítrónu
- ólívuolía
- salt og pipar
Hitið vatnið upp að suðu, saltið örlítið. Látið Búlgur-hveitið í sjóðandi vatnið, lækkið hitan og látið malla þar til vatnið er komið niður fyrir grjónin. Slökkvið á hitanum. Látið standa í pottinum í nokkrar mínútur og blandið síðan öðrum hráefnum saman við grjónin.
Eggaldinsmauk
2 eggaldin
3 hvítlauksgeirar
2 msk söxuð myntulauf
ólívuolía
salt og pipar
Skerið eggaldin í tvennt á lengdina og stráið salti yfir. Látið standa í 10 mínútur og skolið þá saltið af. Setjið í 200 gráða heitan ofn í 45 mínútur eða þar til eggaldinin eru orðin mjúk. Hreinið hýðið af og maukið í matvinnsluvél ásamt hvítlauknum og 1-2 msk af olíu. Saltið og piprið. Setjið í skál og hrærið söxuðu myntulaufin saman við. Það er líka að bæta við 2-3 msk af kotasælu saman við ef vill.
Nokkuð kröftugt Miðjarðarhafsrauðvín með t.d. hið franska La Vieille Ferme eða Perrin Reserve.