Lærið er einhver besti bitinn af lambinu eins og Íslendingar þekkja vel. Til að grilla það er best að láta kjötborðið úrbeina það og skera í „butterfly“. Með því að láta það liggja í þessum kryddjurta- og rauðvínslegi fáið þið magnaða máltíð.
Auðvitað þar lærið ekki að vera heilt. Það má alveg vera háflt og jafnvel er hægt að láta sér duga steikur af innanlæri.
En þetta er það sem þarf:
- Lambalæri, úrbeinað og skorið í „butterfly“
Kryddlögur:
- 2 dl rauðvín
- 1 dl sojasósa
- 5 hvítlauksgeirar, pressaðir
- 3-4 stilkar rósmarín, grófsaxið nálarnar
- 1 lúka myntublöð, söxuð
- 1/2 msk nýmulinn pipar
Blandið öllu saman í skál og veltið kjötinu vel upp úr leginum þannig að hann þekji það alveg. Látið kjötið liggja í leginum í nokkrar klukkustundir í ísskáp. Það spillir ekki fyrir að láta það liggja yfir nótt þótt það sé ekki nauðsynlegt. Takið kjötið úr ísskápnum og látið það ná stofuhita áður en þið eldið það. Haldið leginum til haga og penslið á kjötið að minnsta kosti einu sinni meðan það er grillað.
Berið fram með grilluðum sætum kartöflum. Skerið sætu kartöflurnar í sneiðar. Veltið upp úr ólívuolíu í skál. Saltið og kryddið með t.d. þurrkuðu óreganó og rósmarín. Setjið á grillbakka og grillið með kjötinu.
Reynið t.d. með Grant Burge Miamba Shiraz.