Pizza Helgu

Pizzur bjóða upp á óendanlega möguleika en oftast er best að sveigja ekki of langt frá hinu hefðbundna. Þessi pizza er alveg hrikalega góð og þegar heimasætan, sem hafði komið að þróunarstarfinu, bragðaði á henni var gerð krafa um að hún fengi að nefna pizzuna. Og nefndi hana að sjálfsögðu í höfuðið á sér.

  • Pizzadeig (uppskriftin  er hér)
  • Tómata-passata
  • 1 bréf ítölsk hráskinka
  • 1 dós ferskur Mozzarella í kryddlegi
  • 1 box konfekt-tómatar
  • Óreganó, þurrkað
  • Parmesan
  • Lúka af ferskum basil-blöðum
  • Ólífuolía

Fletjið botninn út mjög þunnt. Penslið með ólívuolíu. Setjið á þunnt lag af tómata-passata eða maukuðum tómötum úr dós. Kryddið hressilega með þurrkuðu óreganó. Raðið sneiðum af ítalskri „prosciutto“ á botninn. Skerið konfekt-tómatana og mozzarella-kúlurnar í sneiðar. Hverja kúlu og tómat í þrjár sneiðar. Raðið á botninn. Rífið ferskan Parmesan-ost yfir.

Bakið í ofni á hæsta mögulega hita eða – sem er langbest – á pizzasteini á grillinu. Þannig næst besti hitinn.

Þegar botninn er stökkur og osturinn hefur bráðnað er pizzan tekin út. Klippið basil-blöðin niður og sáldrið yfir pizzuna.

Með léttu og þægilegu víni á borð við Pasqua Bardolino eða Trivento Shiraz-Malbec.

 

Deila.