Bruggað úr Jökulsárlóni

Vatnajökull heitir nýjasti bjórinn frá Ölvisholti og má segja að hann beri nafn með réttu því vatnið sem notað var við bruggun bjórsins kemur úr ísjökum úr Jökulsárlóni. Bjórinn, sem kynntur var í fyrsta skipti á Dill í Norræna húsinu um helgina, er þar að auki kryddaður með íslensku blóðbergi.

Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari Ölvisholts, segir vatnið sem notað hafi verið úr lóninu tandurhreint og í raun eins nálægt eimuðu vatni og hægt sé að komast. Þar sem íslenskt vatn sé hins vegar alla jafna mjög hreint hafi þetta ekki afgerandi áhrif á eiginleika bjórsins. „Vatnið skiptir máli en er ekki stóri þátturinn í bragði bjórs,“ segir Valgeir. „Fólk á hins vegar eftir að taka eftir blóðberginu, mig hefur alltaf langað til að vinna með það.“

Jakarnir voru hífðir upp úr lóninu og síðan muldir með exi og ísbrjót. Verið er að aldursgreina vatnið í þeim með ísótópagreiningu en talið er að um sé að ræða vatn er hafi fallið sem úrkoma á Ísland um það leyti sem land var að byggjast.

Einungis hafa verið framleiddar 3.500 flöskur af bjórnum í þessari fyrstu tilraun og verður hann fáanlegur á veitingastöðum í ríki Vatnajökuls. Eini staðurinn utan þess svæðis sem mun bjóða upp á Vatnajökul er Dill.

Deila.