Sænsk jólaskinka

Jólaskinka er einhver algengasti rétturinn á jólaborðum Svía og oft er hún smurð með sinnepi og bökuð. Hér er klassísk sænskættuð uppskrift.

  • 3 kg léttsöltuð skinka, úrbeinuð eða með beini
  • álpappír
  • kjöthitamælir

Í grillhjúpinn:

  • 5 msk sænskt sinnep
  • 3 msk ljóst franskt sinnep
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 1 egg
  • 1 tsk ólífuolía
  • rasp
  • negulnaglar

Skinkan er skoluð undir köldu vatni og ofninn stilltur á 170º.
Skinkan er lögð á stóra tvöfalda álpappírsörk og pökkuð vandlega inn. Kjöthitamælinum er síðan stungið inn í þykkasta hluta vöðvans. Ef skinkan er með beini þá má ekki stinga nálægt beininu.
Skinkan er sett í ofnskúffu eða opinn steikarpott sem settur er í neðsta þrep í ofninum. Hún er höfð í ofninum þangað til mælirinn sýnir 72º (betra kannski 74º ef skinkan mun standa oft og lengi á borði við háan stofuhita). Ætla má að steikingartíminn sé 45 mín.—1klst. fyrir hvert kíló af kjöti.
Húðin er flegin ofan af fitulaginu á steikinni og skornar rákir langsum og þversum í fitulagið með hvössum hníf.
Sinnepi, kartöflumjöli, eggi og olíu er blandað vel saman og smurt yfir fitulagið á skinkunni. Raspinu er stráð yfir og negulnöglunum raðað í skurðarpunktana í fitulaginu, einum í hvern punkt.
Skinkan er síðan grilluð þangað til hún verður fagurlega gullinbrún og tekur það ca. 15 mín. við 225º hita. Ef hún er ekki borin fram heit þá er hún látin kólna á svölum stað og síðan sett í kæli.
Þegar skinkan er steikt í álpappír rennur að henni bragðmikið soð sem notað er í sósuna.

Með þessu má t.d. bera fram Waldorfsalat og heimalagað rauðkál.

Fjölmargar jólauppskriftir í viðbót má finna með því að smella hér.

Deila.