Huevos Rotos, sem mætti þýða sem „brotin egg“, er vinsæll réttur á Spáni og má finna á fjölmörgum tapas-börum þar í landi. Í grunninn eru þetta steiktar kartöflur með eggjum og oft pylsu. Eina frægustu útfærsluna er að finna á veitingahúsinu Casa Lucio í Madrid, þar sem rétturinn gengur undir nafninu Huevos Estrellados.
Fyrir fjóra þarf eftirfarandi:
- 6 bökunarkartöflur
- 4 egg
- 3 eggjarauður
- 1 bréf Chorizo-pylsusneiðar
- 3 hvítlauksrif
- Steinselja
- 1-2 dl ólívuolía
Aðferð:
- Flysjið kartöflurnar og skerið í bita, eins konar grófar franskar kartöflur.
- Hitið olíu á pönnu og steikið kartöflurnar þar til þær eru orðnar gullinbrúnar, stökkar og fínar. Takið af pönnunni, setjið á eldhúspappír og geymið.
- Saxið hvítlaukinn fínt og skerið Chorizo-sneiðarnar í litla bita. Svissið hvítlaukinn á pönnunni í 1-2 mínútur, bætið þá pylsubitunum út á og svissið í mínútu eða svo til viðbótar.
- Setjið kartöflurnar aftur út á og blandið saman við pylsurnar og hvítlaukinn. Saltið varlega.
- Setjið í skál og blandið eggjarauðunum saman við á meðan blandan er ennþá heit.
- Steikið egginn í olíu þar til að eggjahvítan er orðin stökk og fín.
- Setjið kartöflurnar á diska, sáldrið fínsaxaðri steinselju yfir og síðan eitt spælegg ofan á hvern disk.
- Berið strax fram.
Þessi réttur smellur að kröftugum spænskum rauðvínum á borð við þau frá Rioja.
Einnig er gott að hafa spænska iberico- eða serrano-skinku með en hana má kaupa í sneiðum í flestum stórmörkuðum.