Ratatouille

Þrátt fyrir að margir tengi ratatouille við Disney-kvikmynd í seinni tíð er engin ástæða til að gleyma hinum suður-franska grænmetisrétti sem sögupersóna myndarinnar er nefnd eftir. Ratatouille á ættir sínar að rekja til gömlu Okkitaníu sem er það svæði sem myndar Suður-Frakkland í dag en Oc-ið í til dæmis heitinu Languedoc vísar til þessa forna héraðs sem á tímum Rómverja var nefnt Aquitania og náði frá núverandi landamærum Spánar austur fyrir Mónakó.

Ratatouille er einhver þekktasti réttur franska Miðjarðarhafssvæðisins og hráefnið er nokkurn veginn alltaf það sama: Eggaldin, kúrbítur, paprika, tómatar, hvítlaukur og að sjálfsögðu ólívuolía.

Hráefni:

 • 1 bufflaukur, grófsaxaður
 • 2 eggaldin
 • 3 kúrbítar
 • 2 rauðar paprikur
 • 4 tómatar
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 2 stönglar timjan
 • 1 dl ólívuolía

Aðferð:

 1. Skerið grænmetið (eggaldin, kúrbít, papriku og tómata) í teninga sem eru um 1 sm á hverja hlið.
 2. Hitið olíuna á pönnu. Mýkið laukin ásamt timjanstönglunum. í um fimm mínútur.
 3. Bætið við eggaldin og papriku og steikið í fimm mínútur til viðbótar.
 4. Sjóðið vatn í potti og sjóðið kúrbítsteningana í 2-3 mínútur.
 5. Bætið kúrbít á pönnuna og eldið í 5 mínútur enn.
 6. Bætið tómatateningum og pressuðum hvítlauk út á pönnuna. Setjið lok á pönnuna og eldið í tíu mínútur.
 7. Bragðið til með salti og pipar.

Ratatouille er frábært meðlæti með til dæmis lambakjöti.

 

Deila.