Grísalund með kryddjurtafyllingu

Kryddjurtir eru í lykilhlutverki í þessari fyllingu fyrir grísalund en gott meðlæti með eru smjörsteiktar kartöflur og ferskt salat.

Fyrir fjóra þarf um 700 gramma lund.

Fyllingin:

  • 1 lítill laukur, fínt saxaður
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 búnt steinselja
  • 2 msk rifinn parmesan
  • 2 brauðsneiðar, skornar í fína teninga
  • 1 tsk paprikukrydd
  • salt og pipar

Hitið smjör á pönnu og mýkið laukinn á miðlungshita. Þegar hann er orðinn glær og mjúkur er hvítlauknum og síðan steinseljunni bætt saman við. Blandið vel saman. Bætið svo brauðmylsnunni og parmesanostinum saman við ásamt paprikukryddinu. Saltið og piprið. Bætið smá vatni saman við, matskeið og matskeið til að blandan myndi þykkt mauk. Leyfið að kólna í nokkrar mínútur.

Skerið djúpa rauf í lundina og fletjið út. Berjið til með kjöthamri. Penslið báðum megin með ólívuolíu. Saltið og piprið skurðmegin. Kryddið með salvíu. Smyrjið með blöndunni. Lokið og festið saman með tannstöngli.

grísalund

Setjið í eldfast form. Saltið og piprið að utan og kryddið vel með paprikukryddi. Eldið í 25-30 mínútur við 180 gráðu hita.

Með þessum rétt hentar Búrgundarvín vel eða rauðvín frá Cotes-du-Rhone, t.d. Guigal.

 

 

Deila.