Frönsk ostakaka

Það má segja að frönsku ostakökurnar, Gateau au fromage, séu fyrirmynd hinnar bandarísku Cheesecake. Frakkar nota yfirleitt ferskan ost sem heitir Fromage Blanc en hér er notaður Mascarpone.

Botninn:

 • 100 g smjör
 • 200 g Digestive-kexkökur
 • 25 g sykur

Bræðið smjörið. Maukið kexið í matvinnsluvél ásamt sykrinum. Bætið smjörinu við og hrærið saman. Dreifið í botninn á 25 sm smelluformi.

Fylling:

 • 500 g Mascarpone-ostur
 • 150 g sykur
 • 2 vanillustengur, skerið í tvennt og skafið innanúr
 • 1 dós sýrður rjómi (18%)
 • 3 egg
 • 1 eggjarrauða
 • safi og rifinn börkur af einni sítrónu

Hrærið Mascarpone, sýrðan rjóma, sykur og vaniluna saman. Bætið næst eggjunum og eggjarauðunni út í og hrærið vel saman. Blandið loks sítrónusafanum og berkinum smám saman út í.

Berjahlaup

 • 100 g ber, t.d. rifsber eða bláber
 • 100 g sykur
 • 2 dl vatn
 • 2 blöð matarlím

Sjóðið ber, sykur og vatn saman í um fimm mínútur. Bleytið upp matarlímsblöðin og bætið þeim síðan út í berjablönduna. Leyfið að kólna.

Aðferð:

Smyrjið lagi af berjasultu yfir botninn (sömu tegund af berjum og þið notið í hlaupið, t.d. rifsberjasultu) og hellið næst ostakreminu yfir. Bakið í um 45 mínútur við 180 gráður. Leyfið kökunni að kólna og smyrjið loks berjahlaupinu yfir. Geymið í ísskáp þar til hún er borin fram.

 

Deila.