Rauð flauelskaka – Red Velvet Cake

Rauð flauelskaka eða Red Velvet Cake er vinsæl kaka í Norður-Ameríku ekki síst í tengslum við Valentínusardaginn. Það sem gerir hana sérstaka er mikið magn af rauðum matarlit er gefur henni sterkrauðan lit. Þetta er kaka sem sker sig úr.

  • 2 1/2 bolli hveiti
  • 1 1/2 bolli sykur
  • 1 bolli súrmjólk
  • 110 g smjör
  • 2 egg
  • 2 msk kakó
  • 1 msk mataredik (borðedik)
  • 40 ml rauður matarlitur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi

 

Hitið ofninn í 180 gráður. Smyrjið tvö 22-23 sm kökuform.

Sigtið hveiti, lyftiduft og salt saman. Geymið.

Blandið saman kakó og matarlit þannig að úr verði þunn blanda. Passið upp á að engir kekkir séu í blöndunni.

Hrærið vel saman smjöri og sykri og bætið síðan við eggjunum, einu í einu. Hrærið áfram og bætið við vanilludropunum og kakó/matarlitsblöndunni. Þá er þriðjungi af hveitiblöndunni blandað saman, helmingnum af súrmjólkinni, síðan hveiti, súrmjólk og loks afganginum af hveitiblöndunni. Passið upp á að allt sé vel hrætr saman.

Þeytið saman edik og matarsóda í lítilli skál. Blandið saman við deigið.

Skiptið deiginu jafnt á milli formanna og bakið í 30 mínútur.

Takið botnana út og leyfið þeim að kólna áður en kremið er sett á.

Kremið

  • 250 g rjómaostur
  • 250 g Marcarpone
  • 3,5 dl rjómi
  • 120 g flórsykur
  • 1 tsk vanilludropar

Þeytið rjómaost og Macarpone saman með handþeytara. Þeytið næst vanilludropa og flórsykur saman við. Þeytið áfram og hellið rjómanum smám saman út í. Bragðið á og bætið sykri eða vanilludropum við ef þarf.

Smyrjið kreminu á milli botnanna. Setjið kökuna saman og smyrjið kremi í kringum alla kökuna. Sáldrið skrautsykri yfir.

Það er líka hægt að skera botnana í tvennt og hafa þannig fjögurra hæða köku.

Deila.