Frönsk jarðarberjakaka með vanillukremi

Jarðarberjakökur eða Tarte aux fraises má finna í nær öllum frönskum bakaríum. Þetta er klassísk frönsk kaka fyllt með créme patissiére eða vanillukremi sem er notað í marga franska eftirrétti.

Botn

 • 100 g smjör (mjög kalt)
 • 3,5 dl hveiti
 • 1 dl flórsykur
 • 1 dl vatn
 • 1 eggjarauða
 • klípa af salti

Sigtið hveiti og flórsykur. Blandið saman ásamt salti í matvinnsluvél. Blandið smjöri saman við. Bætið vatni og eggjarauðu saman við og slökkvið á vélinni um leið og deigið myndar kúlu.

Setjið strax í bökuform (20-22 sm breitt) og þrýstið á deigið með lófanum þannig að það þekji formið vel. Geymið í ísskáp í um klukkustund.

Setjið smjörpappír ofan á formið og fyllið með hrísgrjónum. Í frönskum uppskriftumer ávallt talað um baunir en hrísgrjón gera sama gagn  (það er að segja að þrýsta á deigið) og eru líklegri til að vera til á íslenskum heimilum. Bakið við 200 gráður í um 15 mínútur. Takið þá smjörpappírinn og hrísgrjónin af og bakið áfram í 10-15 mínútur eða þar til deigið hefur fengið á sig fallegan lit.

Créme patissiére

 • 3,5 dl mjólk
 • 1 vanillustöng
 • 4 eggjarauður
 • 1 dl sykur
 • 1/2 dl hveiti

Skerið vanillustöngina í tvennt og skafið kornin innan úr henni með hníf. Blandið saman við mjólkina í potti. Hitið upp að suðu. Passið að mjólkin brenni ekki við.

Pískið saman eggjarauður og sykur. Blandið hveitinu saman við og pískið vel saman. Hellið sjóðheitri mjólkinni smátt og smátt saman við og pískið vel saman. Setjið aftur í pottinn. Hitið varlega upp að suðu og pískið allan tímann. Um leið og suðan kemur upp er hitinn lækkaður verulega. Pískið áfram þar til að kremið hefur þykknað vel.

Setjið í skál og kælið.

Þegar botninn og kremið hafa kólnað er botninn fylltur með kreminu og kakan þakin með ferskum jarðarberjum.

Deila.