Hálf öld þykir kannski ekki ýkja langur tími í sögu evrópskra vínhúsa. Á Nýja-Sjálandi eru vínhús sem starfað hafa svo lengi hins vegar sannkallaðir öldungar enda var nýsjálensk vínrækt ekki byrjuð að slíta barnskónum fyrir 50 árum síðan, hún var varla til þegar að fyrsta vínið frá Villa María kom á markað árið 1962.
Vínhúsið var stofnað af George Fistonich. Foreldrar hans fluttu til Nýja-Sjálands frá Króatíu á þriðja áratug síðustu aldar og Fistonich ákvað snemma að leggja vínrækt fyrir sig. Foreldrar hans voru hins vegar á öðru máli og hann var látin nema trésmíði og fyrir hann var lagt að gerast byggingameistari.
Fistonich lét sér hins vegar ekki segjast og faðir hans féllst á að leigja honum lítinn skika. Hann hóf þá tvítugur vínrækt á heilum 0,4 hektara árið 1961 og fyrsta vínið leit dagsins ljós árið síðar.
Villa Maria hefur alla tíð síðan verið leiðandi fyrirtæki í þróun nýsjálenskra vína og hafði meðal annars forystu um það í kringum aldamótin að hætta alfarið notkun korktappa. Nú er svo komið að nær öll nýsjálensk vín eru með skrúfuðum tappa.
Vínlínan frá Villa Maria skiptist í nokkra grunnflokka en tvö vínhús eru starfrækt, annað í Auckland á Norður-Eyju en hitt í Marlborough á Suður-Eyju. Einföldustu vínin eru Private Bin en síðan koma Cellar Selection, Reserve og Single Vineyard. Vínótekið mun á næstu vikum taka þau vín frá Villa Maria sem hér eru fáanleg til umfjöllunar.
George Fistonich og Villa Maria hafa hlotið margvíslegar viðurkenningar og var Fistonich m.a. fyrir skömmu á lista UK Wine International yfir 50 áhrifamestu einstaklinga vínheimsins. Þá var hann aðlaður árið 2009 fyrir framlag sitt til nýsjálenskra vína og ber því titilinn Sir George.