Hreindýr með púrtvínssósu

Hreindýr er frábær matur en sósan með skiptir líka miklu máli. Hér er góð púrtvínssósa með appelsínusafa. Þetta magn miðast við fjóra, það getur verið skynsamlegt að tvöfalda sósumagnið.

  • 50 g pancetta eða beikon
  • 1 laukur, skorinn í grófa bita
  • 2-3 hvítlauksgeirar, skornir í tvennt
  • kryddvöndur (t.d. rósmarín, timjan, steinselja)
  • 2 dl púrtvín
  • 2 dl gott kjötsoð
  • 2 dl appelsínusafi
  • smjör

Skerið beikonið í bita og brúnið í potti í 4-5 mínútur. Bætið lauk og hvítlauk í pottinn ásamt kryddvendinum (bouquet garni) og brúnið vel. Hellið púrtvíninu í pottinn, notið það til að hreinsa upp skófarnar (déglacer) og sjóðið niður um helming. Þá er soðinu og appelsínusafanu bætt út í og allt aftur soðið niður um helming.

Síið sósuna, setjið aftur í pottinn og sjóðið niður þar til að hún er orðin þykk og bragðmikil. Setjið væna matskeið af köldu smjöri út í sósuna í lokin og pískið saman við. Athugið að hægt er að gera sósuna fyrirfram og hita upp aftur. Smjörið fer hins vegar alltaf út í rétt áður en að hún er borin fram.

Hreindýrið sjálft er best að eiga sem minnst við og leyfa því að njóta sín, rétt eins og um góða nautasteik væri að ræða. Saltið og piprið, steikið á pönnu í nokkrar mínútur og klárið að elda kjötið í um 180 gráðu heitum ofni þar til að það hefur náð rare/medium rare.

Með þessu er gott að hafa bakaða kartöflubita, rósakál og kóngasveppi (hægt að kaupa þurrkaða) smjörsteikta með skalottulauk og steinselju. Einnig er gott að hafa heimatilbúð rauðkál með.

Þetta kallar á virkilega gott rauðvín, t.d. góðan Bordeaux á borð við Chateau Pibran eða Ítala á borð við Monti Garbi eða Brolio.

Deila.