Kálfarúllur fylltar með mozzarella, rósmarín og Parmaskinku

Kálfakjöt er af einhverjum ástæðum ekki jafnvinsælt á Íslandi og t.d. í Frakklandi og á Ítalíu. Það er þó oft hægt að fá kálfakjöt í betri kjötborðum, ekki síst þegar líða tekur að helgi. Hér er ljúffeng ítölsk útfærsla þar sem að við útbúum kálfarúllur fylltar með mozzarella, rósmarín og parmaskinku.

  • 600 g kálfasneiðar, t.d. innralæri
  • 1 stór mozzarellakúla
  • rósmarínstönglar
  • parmaskinka
  • nokkrir heilir hvítlauksgeirar
  • smjör og olía
  • salt og pipar

Byrjið á því að fletja kálfasneiðarnar út. Setjið plastfilmu undir og yfir og bankið þær hressilega til, t.d. með kjöthamri þangað til að þær eru orðnar vel þunnar.

Skerið mozzarellakúluna í sneiðar og dreifið yfir kjötið. saltið og piprið. Setjið einn rósmarínstöngul á hverja kálfasneið og síðan sneið af parmaskinku.

Rúllið upp og lokið rúllunum með því að vefja parmaskinku utan um þær.

Hitið smjör og olíu  á pönnu og brúnið sneiðarnar. Bætið hvítlauksgeirunum út á. Setjið inn í 200 gráðu heitan ofn og eldið í um 10-12 mínútur.

Takið sneiðarnar af pönnunni og leyfið að jafna sig í nokkrar mínútur. Á meðan setjið þið pönnuna aftur á eldavélina og búið til sósu úr soðinu sem er á henni með því að bæta við smá skvettu af hvítvíni eða sítrónusafa.

Skerið rúllurnar í sneiðar og setjið á diska ásamt t.d. kartöflubátum steiktum í smjöri og kryddjurtum og fersku salati. Hellið sósunni og hvítlauksgeirunum yfir.

Með þessu gott ítalskt rauðvín frá Toskana á borð við Cecchi Chianti.

Deila.