Kálfasneiðar Parmigiano

Kálfasneiðar í parmesan er útgáfa ítalsk-ameríska eldhússins af Scaloppini Milanese og kölluð „veal parmesan“ þar vestra. Þunnar kálfasneiðar (snitsel) í raspi með tómatasósu en ólíkt Ítölunum sem bera tómatasósuna fram með sneiðunum og pasta þá eru þær hér bakaðar með sósunni og osti.

Það sem þarf er:

 • kálfasnitsel
 • egg
 • hveiti
 • mjólk
 • heimtilbúið brauðrasp, sjá hér að neðan
 • tómatasósa, sjá hér að neðan
 • mozzarellakúlur
 • parmesanostur
 • fínt söxuð steinselja

Byrjið á því að útbúa raspið (þó að auðvitað megi nota tilbúið rasp). Það er hægt að nota dagsgamalt brauð sem hefur staðið og er orðið hart eða þá rista brauðsneiðarnar í ofni þar til að þær eru orðnar harðar. Myljið í matvinnsluvél og blandið parmesanosti saman við ásamt örlitlu salti og pipar.

Takið til hveiiti og pískið smá mjólk saman við eggin. Veldið sneiðunum fyrst upp úr hveitinu. Síðan eggjablöndunni og loks raspinu.

Hitið olíu og smjör saman á pönnu og steikið sneiðarnar þannig að þær fái á sig góðan lit báðum megin. Saltið þær og piprið.

Tómatasósa

 • 5 dl tómatapassata
 • 1 laukur, fínt saxaður
 • 3-5 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
 • þurrkað óreganó
 • skvetta af rauðu eða hvítu víni ef þið eigið
 • ólífuolía.

Byrjið á því að hita olíuna í þykkum potti og mýkið laukinn í nokkrar mínútur. Bætið hvítlauknum út á og steikið áfram í 1-2 mínútur. Hellið rauðvíni út á, leyfið að sjóða aðeins niður og bætið þá tómatapassata og óreganó út í. Látið malla í um 15 mínútur. Leyfið að kólna aðeins og maukið örstutt í matvinnsluvél.

Setjið næst kálfasneiðarnar í eldfast fat. Tómatasósuna yfir. Sneiðið mozzarella niður og raðið á sneiðarnar. Rífið vel af parmesan og dreifið yfir.

Eldið við 200 gráður í 8-10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað. Sáldrið fínt saxaðri steinselju yfir.

Fleiri ítalsk-amerískar uppskriftir má finna hér.

 

 

 

Deila.