Taco bleikja með Guacamole-sósu

Þessi uppskrift er eins konar tilbrigði við tex mex-eldhúsið þó að aðalhráefnið sé ekki hefðbundið á þeim slóðum. Bleikjan smellur vel að margvíslegum kryddsamsetningum og hér kryddum við hana með Taco-kryddblöndu og Chipotle-mauki áður en hún er grilluð. Það má líka allt eins nota laxaflök. Grillsósan með fylgir sama stefi – köld sósa í guacamolestíl með sýrðum rjóma.

Chipotle eru þurrkaðir og reyktir Jalapeno-chilibelgir sem eru vinsælir í mexíkóskri matargerð og ekki síður í suðvesturhluta Bandaríkjanna. Chipotle-mauk eða „Chipotle Paste“ má finna í krukkum í helstu stórmörkuðum.

Smyrjið bleikjuflökin (nú eða laxaflökin) með mauki og kryddið vel með Tacokryddi. Leyfið að standa í 15-30 mínútur.

Hitið grillið vel. Setjið álpappír á grillið og flökin ofan á með roðhliðina niður. Grillið í um 5 mínútur fyrir bleikju undir loki. Laxinn og mjög þykk flök þurfa aðeins lengri tíma.

Guacamole-sósa

  • 2 þroskaðir avocado
  • safi úr einni lime
  • chiliflögur eða Tabasco
  • 1 msk Chipotle-mauk
  • 1 lúka fínt saxaður kóríander
  • 1 dós sýrður rjómi
  • salt og pipar

Skerið avocado í tvennt. Hreinsið ávaxtakjötið innan úr og stappið í mauk með gaffli. Setjið í skál. Blandið lime-safanum saman við og fínt söxuðum kóríander. Saltið og piprið og kryddið með annað hvort chiliflögum eða nokkrum dropum af tabasco. Blandið Chipotle-maukinu og sýrða rjómanum vel saman við. Geymið í ísskáp í 1-2 klukkutíma áður en borið er fram.

Berið flökin fram með hrísgrjónum, sósunni og þess vegna tortilla-pönnukökum.

Ungt og ávaxtaríkt Nýjaheims-Chardonnay með s.s. Fleur du Cap Chardonnay.

Fleiri spennandi uppskriftir með grilluðum laxi og bleikju má finna hér. 

Deila.