Strikið

Lengi vel, löngu áður  en Friðrik V og  síðar Rub 23 urðu að veruleika, var veitingastaðurinn Fiðlarinn við Skipagötu háborg matargerðarinnar á Akureyri. Staðurinn átti sínar hæðir og lægðir eins og gengur og gerist en í minningunni er þetta hinn fínasti staðurinn. Útsýnið var auðviðað einstakt og það hefur Strikið sem nú er starfrækt í sama húsnæði og Fiðlarinn á sínum erft. Þarna má horfa út yfir Eyjafjörðinn og yfir bæinn og njóta af þeirri fegurð sem að hið fagra bæjarstæði höfuðstaðs Norðurlands býður upp á.

Strikið býður upp á tvo veitingasali og auk þess frábærar salir sem að bíða sumarsins. Það voru ennþá snjókaflar á svölunum þótt maí væri í aðsigi, en mikið litu þær aðlaðandi út, það var ekki mikið mál að ímynda sér þær sólbakaðar í norðlenskri blíðu.

Sjálfur staðurinn er bjartur, nútímalegur, viðarborð, ódúkuð. Matseðillinn fjölbreyttur og stefnan var í forréttum tekinn á skelfiskinn. Tempurahumar var borinn fram í lítilli krukku, halarnir tveir í stökku deigu og mildri jógúrtsósu. Af smáréttaseðlinum kom humar og risarækjur í risotto, all nokkru meiri réttur. Flott risotto, bragðmikið og blómkál setti mikinn – og góðan – svip á réttinn. Hins vegar fór lítið fyrir kókos í kókoshumarsósu. Eina lýtið var fetaostur sem skellt var ofan á – greinilega úr dós með kryddlegi, sem tók of mikið til sín og dró þennan annars fína rétt aðeins niður.

Við smökkuðum tvo aðalrétti, annars vegar steikta andarbringu og hægeldaðan legg með fennel og kremuðu sveppabyggi og hins vegar nautalund og uxabrjóst með chilisveppa- og maíssalsa, tempurasætkartöflum og béarnaisesósu. Hvað á maður að segja. Báðir réttirnir voru forvitnilegir um margt, ágætar hugmyndir og flott brögð. Eldun á kjötinu fín í báðum tilvikum og hráefni ágæt, béarnaise þó nokkuð þunnur og daufur.

Skammtar voru hins vegar risavaxnir, þetta var eins og maður væri komin til Houston en ekki Akureyri,  og báðir réttirnir verulega ofhlaðnir. Það var allt of mikið af aukahlutum á diskunum sem voru engu að bæta við, þvældust bara fyrir og tóku athygli og fókus frá því sem átti að vera í forgrunni (naut, önd o.sv.frv.). Less is more.

Engu að síður stóð maður ánægður upp, þetta var góður matur og þjónustan var afbragðsgóð hjá hinu unga þjónustuliði í salnum. Vínlistinn með ágætum og ekki síst ánægjulegt að geta fengið flott Chablis frá Févre í glasavís.

Og þá er bara að bíða eftir sumrinu – þannig að hægt sé að njóta hádegisverðar með útsýni yfir Eyjafjörðinn.

Deila.