Út í bláinn í Perlunni

Það hafa orðið verulegar breytingar á Perlunni í Öskjuhlíð á þessu ári. Ein af þeim er að veitingahúsið Perlan sem hefur verið starfræktur frá því að útsýnis- og veitingamannvirkið Perlan ofan á hitaveitutönkunum var opnað fyrst fyrir þremur áratugum hætti rekstri. Perlan var lengi vel með helstu veitingahúsum bæjarins, jólahlaðborðin þóttu einstök, þar voru haldnar fjölmargar opinberar veislur fyrir erlend fyrirmenni og margir af bestu kokkum og þjónum landsins komu við sögu staðarins.

En allt hefur sinn vitjunartíma og þegar Reykjavíkurborg gerði breytingar á rekstarfyrirkomulagi hússins var rekstri Perlunnar hætt. Rekstraraðilar Perlunnar hafa nú komið sér fyrir á Lækjarbrekku en Kaffitár tók við efstu hæð Perlunnar. Þar er nú rekið kaffihús undir merkjum Kaffitár en einnig veitingahúsið Út í bláinn á hinum helmingi hæðarinnar.

Það er létt og nútímalegt yfirbragð yfir Út í bláinn, svartar flísar hafa tekið við af hinu dökka parketti og húsgögn og borðbúnaður eru meira í takt við það sem gengur á gerist á nútímalegum kaffishúsum en eldri og virðulegum veitingastöðum. Litapalettan mild með gráum og grárauðum tónum áberandi, stærri borð með marmaraplötum.

Eldhúsið er opið og fyrir miðju staðarins og þar ræður Atli Þór Erlendsson ríkjum, sem m.a. hefur verið yfirmatreiðslumaður á Grillinu, landsliðsmaður í kokkalandsliðinu og matreiðslumaður ársins.

Matargerðin er létt og nútímaleg, daðrar örlítið við hið nýnorræna á köflum. Einfaldleiki og hreinleiki í brögðum þar sem hráefni fær að njóta sín. Seðillinn er stuttur og bistrólegur, réttirnir eru ekki margir en hægt að velja úr kjöti, fisk og grænmettisréttum í jafnt forrétt sem efttirrétt. Brauð er selt sér, sem er ekki algengt að sjá, en var hið ágætasta súrdeigsbaguette með þeyttu smjöri og heimagerðu hummus.

Reykt ýsa var afskaplega lítill skammtur, fiskurinn nokkuð saltur með ferskum gúrkum, dilli og piparrótarsósu en Brokkólíni fínasti grænmetisréttur, þar sem sætur, sultaður rauðlaukur og ristaðar möndlur stýrðu bragðinu ásamt stökku og fínu brokkolíni, quinoa gerir síðan örugglega enn hollara.

Þorskur í aðalrétt reyndust vera fín, fullkomlega elduð hnakkastykki með ferskum og fínum smjörsteiktum kartöflum og mildri sósu með grófkorna sinnepi. Lambakótiletturnar afskaplega fallega skornar, eldun óaðfinnanleg og krydd drógu fram og komplementeruðu lambabragðið án þess að vera of fyrirferðamikil, kartöflur og mjög bragðmild jógúrtsósa með.

Eftirrétturinn æðislegur, rabarbarapæ sem kom í skál, bakaður og sætur rabarbarinn neðst blandaður með karamellu og væn ískúla ofan á. Algjört sælgæti.

Þjónustuliðið er ungt en ágætlega þjálfað og stendur sig vel, þjónustan lipur, óformleg eins og á góðu kaffihúsi. Vínseðill er stuttur en þar er hægt að finna prýðilegustu vín og verð er mjög sanngjarnt miðað við það sem gengur og gerist í dag. Til fyrirmyndar að bjóða upp á hin ágætustu vín bæði hvít og rauð í þremur stærðum af karöflum, 150 ml, 300 ml og 500 ml.

 

 

Deila.