Mexíkóskt nautakjöt með Pico de Gallo og guacamole

Lime, chili og kóríander eru notuð í mörgum mexíkóskum réttum og þessi réttur er enginn undantekning. Það er mikið af chilipipar í þessu en það er ekkert að óttast. Ef hann er fræhreinsaður vel er hann ekkert hættulega sterkur þegar búið er að elda hann eða marínera með lime-safa.

Við byrjum á því að marínera nautakjötið. Það þarf ekki bestu vöðvana, fínt er að nota bita úr læri eða rumpi, frekar þunnt skorið.

Í maríneringuna þarf þetta hráefni:

 • 1 laukur
 • 3-4 hvítlauksrif
 • 1 msk ferskur óregano, fínsaxað eða teskeið af þurrkuðu oregano-kryddi.
 • 1 grænn chili, fræhreinsaður og saxaður
 • 1 lúka kóríander, saxað,
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk cayenne-pipar
 • 2 dl matarolía
 • Salt

Blandið öllu saman í skál og veltið kjötbitunum upp úr því. Best er síðan að setja þetta allt í góðan plastpoka og leyfa kjötinu að liggja í leginum í um 2-3 klukkutíma.

Á meðan gerum við Pico de Gallo sem er mjög vinsælt mexíkóskt meðlæti.

 • 1 laukur
 • 1 lúka ferskur kóríander, fínsaxað
 • 1 lime
 • 1 grænn chili-pipar, fræhreinsaður og fínsaxaður
 • 2 tómatar, fræhreinsaðir og grófsaxaðir.
 • Salt

Blandið öllu saman í skál , pressið safann úr lime yfir, saltið skv. smekk og geymið.

Þegar kjötið er búið að liggja nógu lengi í leginu er það tekið upp og skellt á grillið eða steikarpönnuna. Ekki elda það of mikið, ca medium-rare hentar best í þennan rétt.

Hitið Tortilla-pönnukökur í ofni eða á grillinu. Smyrjið með sýrðum rjóma.

Skerið síðan kjötsteikurnar niður í minni bita og setjið á pönnkökurnar. Setjið ca. 2 matskeiðar af Pico de Gallo ofan á kjötið og lokið pönnukökunum.

Berið fram með Guacamole og hrísgrjónum.

Suður-Amerískt rauðvín á borð við Casillero del Diablo Cabernet Sauvignon með eða bjór.

Deila.