Chapoutier La Ciboise Coteaux-du-Tricastin 2007

Það verður ekki af Chapoutier skafið að þar er flottur framleiðandi á ferð. Það að vínin séu í raun lífrænt ræktuð er ekki tekið fram. Michel Chapoutier, sem tók við fjölskyldufyrirtækinu við upphaf síðasta áratugar, ákvað einfaldlega að hann ætlaði ekki að nota neitt annað en náttúruna sjálfa við framleiðsluna.

Þekktustu vín Chapoutier koma úr norðurhluta Rhone frá Hermitage, Cote-Rotie og Chateauneuf-du-Pape. Coteaux-du-Tricastin er hérað syðst í Rhone eða nyrst í Provence, eftir því hvernig menn vilja líta á málið. Og að mörgu leyti eru Provence-einkenni hinum yfirsterkari í þessari Syrah-Grenache blöndu.

La Ciboise 2007 er svolítið villt og sveitalegt með kröftugum, krydduðum kirsuberjaávexti, jörð og fjósi. Þéttur og nokkuð tannískur ávöxtur með krydduðum enda í munni.

Ég verð að segja fyrir mig að ég elska þennan vínstíl, þetta er svona ekta franskt „brasserie“ eða „bistro“-vín í betri klassanum sem smellur að einfaldri steik jafnt sem ostum.

Reynið til dæmis með frönsku bistrosteikinni okkar eða estragonkjúklingnum.

1.989 krónur.

 

Deila.