Þetta viðtal við Miguel Torres sem ég tók í heimsókn til Vilafranca del Pénedes er komið nokkuð til ára sinna. Það gefur hins vegar ágæta innsýn í sögu þessa merkilega fyrirtækis:
Þegar fjallað er um héraðið Pénedes er eiginlega fyrst og fremst verið að ræða um Miguel Torres, snillinginn sem kom héraðinu á kortið og hefur raunar verið einn helsti sendiherra spænskrar víngerðar um árabil.
Miguel Torres eldri, sem varð yfirmaður Torres-fyrirtækisins árið 1932, einungis 23 ára að aldri, hefur verið lýst sem viðskiptasnillingi. Örfáum árum eftir að hann erfði fyrirtækið hófst spænska borgarastyrjöldin, sem hafði mjög alvarleg áhrif á reksturinn. Verkamannaráð lýðveldissinna gerði eignir Torres upptækar og þegar flugvélar Francos gerðu sprengjuárás á Vilafranca del Pénedes hæfðu sprengjurnar óvart víngerð fjölskyldunnar í stað járnbrautarstöðvar bæjarins. Miguel eldri tókst samt að koma fyrirtækinu á flot á ný eftir eyðileggingu borgarastyrjaldarinnar og gera það að stórveldi í vínheiminum.
Við upphaf fimmta áratugarins, þegar síðari heimsstyrjöldin stóð sem hæst, fór hann ásamt konu sinni í söluherferð til Bandaríkjanna og Suður-Ameríku og voru viðbrögðin vægast sagt góð. Innflutningur á frönskum vínum hafði alfarið fallið niður vegna stríðsins en spænsku skipin gátu í krafti hlutleysis Spánar siglt yfir Atlantshafið. Hinn mikli útflutningur sem nú hófst til Ameríku varð til að bjarga fyrirtækinu frá hruni og um leið og stríðinu lauk hóf Miguel mikla markaðssókn um alla Evrópu.
Fram til þessa höfðu engar vínekrur verið í eigu fjölskyldunnar, heldur höfðu þrúgur verið keyptar af bændum hér og þar í Pénedes-héraði. Næsta skref í hernaðaráætlun Miguels var að bæta úr því. Til að svo mætti verða þótti nauðsynlegt að einhver úr fjölskyldunni aflaði sér hinnar verðmætu þekkingar á þessu sviði og var sonur hans, Miguel Augustin, gerður út af örkinni í því skyni. Eftir að hafa lokið prófi í efnafræði frá Barcelona-háskóla hélt hann til Frakklands og nam þar vínfræði við háskólann í Dijon í þrjú ár. Þegar Miguel Augustin kom aftur til Vilafranca del Pénedes að loknu námi var hann uppfullur af nýjum hugmyndum og vildi ólmur auka hlut úrvals franskra vínþrúgna á borð við Cabernet Sauvignon, Chardonnay og Pinot Noir við hlið hinna hefðbundnu spænsku þrúgna, sem voru ráðandi á vínekrunum. Faðir hans var hins vegar ekki sama sinnis og urðu út af þessu mjög harðar deilur innan fjölskyldunnar.
Sigurvegari þessarar rimmu var Miguel yngri og árið 1960 voru fyrstu Cabernet-þrúgurnar gróðursettar ásamt Chardonnay. Núna er að finna á vínekrum Torres, auk hefðbundinna katalónskra þrúgna á borð við Parellada, Tempranillo, Carinena og Garnacha, flestar þekktustu „alþjóðlegu“ þrúgurnar, s.s. Riesling, Merlot, Sauvignon Blanc og Gewürztraminer. Torres skiptir vínum sínum í þrjá flokka. Í fyrsta lagi „hefðbundin“ vín úr klassískum spænskum þrúgum, í öðru lagi „æðri vín“ úr alþjóðlegum jafnt sem spænskum þrúgum og loks einnar ekru vín eða Pagos úr bestu þrúgunum, sama hver uppruni þeirra er.
Af hefðbundnum vínum Torres má nefna hvítvínið Viña Sol, sem framleitt er úr Parellada-þrúgunni, Sangré de Toro, Miðjarðarhafsvín úr þrúgunum Garnacha og Cariñena, og Coronas, sem byggist fyrst og fremst á Tempranillo með agnar viðbót af Cabernet.
Sem dæmi um „æðri“ vínin má nefna Gran Viña Sol, hvítvín blandað úr Chardonnay og Parellada, Viña Esmeralda, hvítvín með nokkurri sætu unnið úr Gewürztraminer og Muscat, Gran Sangré de Toro, framleitt úr völdum Garnacha og Cariñena-þrúgum og geymd lengur á eik en litlibróðir, og Gran Coronas, blöndu af Cabernet Sauvignon og lítils háttar Tempranillo.
Í hópi einnar ekru vínanna eru hvítvínið Castell de Fransola (Sauvignon Blanc og Parellada), Milmanda (Chardonnay), besta hvítvín fyrirtækisins er kemur af tíu hektara ekru í 500 metra hæð yfir sjávarmáli, Mas Borrás, rauðvín úr Búrgundarþrúgunni Pinot Noir, og flaggskipið Mas la Plana, sem oftast gengur undir nafninu „svarti miðinn“.
Cabernet-vínviðurinn sem ræktaður er fyrir þetta vín var gróðursettur árið 1966 og var vínið framleitt í fyrsta skipti árið 1970. Öllum á óvart, líklega ekki síst Torres sjálfum, lenti það í efsta sæti á vínólympíuleikum Gault-Millau í Frakklandi árið 1970. Château Latour 1970 varð að sætta sig við annað sætið, Pichon-Lalande við það þriðja og La Mission Haut-Brion við fjórða sætið. Hefur Mas la Plana endurtekið þennan leik nokkrum sinnum í sambærilegum smökkunum.
Þetta varð til að opna augu vínheimsins fyrir þessu litla katalónska vínfyrirtæki og Torres varð fljótlega einn virtasti víngerðarmaður Spánar. Vín hans hafa notið hylli um allan heim og hann hefur gegnt starfi frumkvöðuls víðar, t.d. í Chile, þar sem hann var í hópi þeirra fyrstu til að hefja víngerð byggða á nútímalegri tækni. Þá rekur dóttir hans Miramar samnefnt fyrirtæki í Kaliforníu, sem vakið hefur þó nokkra athygli fyrir vín sín.
Torres er einnig nátengdur íslensku vínsögunni og voru vín hans með þeim þekktustu hér á landi um langt skeið. Raunar var Ísland mikilvægasti markaður fyrirtækisins á Norðurlöndum lengi vel og var vínekra nefnd Viña Islandia í virðingarskyni við landið, en flestir fulltrúar Torres-fjölskyldunnar hafa einhvern tímann heimsótt Ísland. Sjálfur kom Miguel til landsins árið 1975. Myndar vínekran Ísland um fjórðung ekrunnar Mas la Plana og má því segja að bestu vín Torres komi frá Íslandi.
Það dró þó úr vægi íslenska markaðarins er Torres hóf markaðssókn í Svíþjóð og Finnlandi, en þar urðu vín hans einnig brátt meðal söluhæstu vína.
Þess má einnig geta að vínið sem naut hvað mestra vinsælda á Íslandi var sérblandað fyrir Íslandsmarkað, mun sætara vín en nokkur annar markaður vildi. „Ungir markaðir fyrir vín hafa tilhneigingu til þess að vilja sæt vín en þeir gömlu taka þurr vín framyfir. Þetta er ákveðin þróun sem á sér stað. Venjulega byrjar fólk á auðveldari vínum þegar það hefur vínneyslu. Ég myndi til dæmis aldrei ráðleggja ungri konu, sem væri að byrja að drekka vín að fara strax í þung og erfið vín,“ sagði Miguel Torres þegar við ræddum þessi mál.
Torres hefur ákveðnar skoðanir á flestum hlutum og hefur verið óþreytandi í að auka skilning manna á vínum og þá ekki einungis spænskum vínum heldur vínum yfirleitt. Meðal annars hefur hann lagt mikið í rannsóknir á hollustu vínsins og hann er fljótur að benda á að vín beri ekki að flokka með öðru áfengi, s.s. brenndum drykkjum og bjór. „Vín er ekki drukkið vegna áfengisáhrifanna fyrst og fremst heldur vegna bragðsins. Ef menn vilja verða undir áhrifum eru til aðrar miklu fljótvirkari og ódýrari leiðir. Vín ber að ræða og grandskoða. Menn misnota ekki hluti sem þeir þekkja vel og bera virðingu fyrir.“
Þegar hann var spurður hvernig hann teldi best að koma í veg fyrir að áfengi væri misnotað sagði Torres að það væri að fyrstu kynni barna af víni væri flaska á matarborðinu. „Þar með er strax komin ákveðin menningarleg tenging við neysluna. Börnin eiga að sjá foreldra sína neyta víns undir eðlilegum kringumstæðum og þegar þau eru orðin þrettán eða fjórtán ára gömul má byrja að gefa þeim smá smakk. Þau eiga að sjá að þetta er hlutur sem maður á að meta og njóta.“ Hann lagði ríka áherslu á að þetta sé æskilegra en að unglingar komist fyrst í snertingu við áfengi í hópi vina um helgar: „Vínið er staðreynd og við verðum að lifa með því. Við eigum líka að virða vínið. Rétt notað getur það orðið til að bæta samskiptin jafnt innan fjölskyldunnar sem milli vina.“